„Ég hef fengið bara nokkuð góð viðbrögð. Það eru margir sem hafa talað við mig eftir fundinn í morgun og frekar haft samúð með okkar afstöðu. Þannig að ég var frekar ánægður með það. Að vísu sagði Evrópuráðherra Kýpur að það væri ekki mjög í anda Evrópusambandsins að beita refsiaðgerðum eða hóta aðgerðum en þeir eru nú samt að gera það.“
Þetta segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is en hann gagnrýndi harðlega á fundi Evrópunefnda þjóðþinga Evrópusambandsins og umsóknarríkja á Kýpur í dag hótanir sambandsins um refsiaðgerðir gagnvart Íslandi vegna makríldeilunnar. Árni situr fundinn ásamt Ólöfu Nordal, þingmanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins.
„Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvort og þá hvernig þeir kunni að beita þessum aðgerðum en mér finnst bara mikilvægt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri þar með maður getur,“ segir Árni. Spurður hvort hann hafi orðið var við skilning á afstöðu Íslendinga segist hann ekki hafa orðið mikið var við það þó menn skilji að málið sé mikilvægt fyrir Íslendinga.
„En til dæmis þá vakti formaður utanríkismálanefndar kýpverska þingsins máls á því á fundinum að í Brussel yrðu menn að átta sig á því að fyrir litlar þjóðir þá gætu einstök mál eins og til dæmis sjávarútvegur verið svo þýðingarmikil þó það sama eigi ekki við um stóru ríkin og fyrir Brussel-veldið,“ segir hann.
Heilt á litið segir Árni það tilfinningu sína að evrópsku þingmennirnir hafi verið ánægðir með að sjónarmiðum Íslendinga í makríldeilunni væri komið á framfæri á fundinum.