Dansar í strætó

Agnes fær mikið af sviðsklæðnaði sínum í vinnunni.
Agnes fær mikið af sviðsklæðnaði sínum í vinnunni. Morgunblaðið/Ómar

Raftónlistin var í fyrirrúmi í gærkvöldi á þriðju Airwaves-upphitunartónleikum Símans á Faktorý og gátu gestirnir dansað yfir sig við tóna frá Sykri, Berndsen og RetRobot. Monitor tók púlsinn á Agnesi Björt, söngkonu Sykurs, rétt áður en hún steig á svið.

Þú vinnur í Fatamarkaðnum við Hlemm. Er allur sviðsklæðnaðurinn þinn þaðan? Mikið af honum alla vega, það koma oft alls konar skrýtin og flippuð föt til mín sem virka vel á sviði.

Þú ert þekkt fyrir villta og rokkaða framkomu. Væri þetta hundleiðinlegt ef þú stæðir bara kyrr með lokuð augun? Þetta væri náttúrlega ómögulegt ef ég stæði kyrr með lokuð augun, þá gæti ég ekki sungið eða tjáð mig eins og ég vildi. Ég á erfitt með að hreyfa mig ekki þegar ég heyri tónlist, stundum til dæmis gríp ég sjálfa mig við að dansa í strætó við lag í útvarpinu en þegar ég er að spila þá margfaldast þessi tilfinning og ég næ fullkominni útrás. Tónlist er ekki bara eitthvað sem þú heyrir, heldur líka hvernig þú skynjar orkuna frá tónlistinni.

Þið hafið spilað hér og þar á íslenskri og erlendri grundu. Hvar var besta giggið og hvar var það sísta? Besta giggið að mínu mati var á Nasa á laugardeginum á Airwaves 2011. Það voru allir í svo miklu stuði og góðu skapi. Það var eins og það myndaðist rafmagn á milli okkar og fólks úti í sal, það var svo gott orkuflæði. Einu sinni spiluðum við á bar í Keflavík, og það var svo hryllilegt gigg að staðurinn brann.

Er einhver munur á því að spila erlendis og hérlendis? Mér finnst eins og margir útlendingar séu oft opnari fyrir að hlusta á nýja tónlist og fylgjast með þótt þeir kunni ekki textann eða þekki ekki laglínuna en þegar Íslendingar komast í fíling verður ekki aftur snúið og þeir sleppa sér frekar en annað fólk. Það er fallegt að sjá.

Eru Kristján og Halldór alltaf með mörg járn í eldinum? Já, þeir þurfa að hamra járnið meðan það er heitt.

Hvað er framundan hjá Sykri? Airwaves og svo ætlum við að kíkja til Noregs og spila á nokkrum tónleikum þar. Við erum líka að vinna að nýju efni sem er allt rosalega spennandi.

Þetta er þín önnur hátíð en strákarnir hafa spilað oftar. Hver er snilldin við Airwaves? Snilldin við Airwaves er stemningin sem myndast við að fara saman, með fullt af skemmtilegu fólki, á fimm daga tónlistarhátíð. Mér finnst líka spenningurinn rosalega skemmtilegur.

Hvað ætlar þú að sjá á Airwaves? Allt sem ég kemst yfir að sjá.

Nú er blaðamaður ekki að reyna að vera fyndinn en heyrst hefur úr nokkrum áttum að til sé fólk sem heldur að textinn í Reykjavík sé „Reykjavík þú rekur við“. Er það áfall fyrir ykkur sem hljómsveit? Ég hef heyrt margar útgáfur af textanum í Reykjavík. Reykjavík þú rekur við, rekur mig, drepur mig, leikur mig, lepur mig og svo framvegis en við hlæjum bara að þessu öllu saman og leiðréttum fólk vinsamlega ef þess er óskað.

Meira í Monitor. Blaðið má lesa í heild sinni hér að neðan.

mbl.is