„Lögin verða áfram sungin á íslensku. Við erum allir stúdentar í þýsku en erum nú ekkert sérstakir í henni. Ég hugsa samt að Doddi (söngvari) reyni að koma með einhverjar kynningar milli laga á þýsku. Hann er búinn að vera að æfa þær á fullu,“ segir Davíð Arnar Sigurðsson, píanóleikari Lockerbie, sem heldur í dag í sitt fyrsta tónleikaferðalag út fyrir landsteinana. Hljómsveitin sendi frá sér sína fyrstu plötu í fyrrasumar og skrifaði undir plötusamning við þýska plötufyrirtækið Käpitan Platte í nóvember á sama ári. Platan, sem ber nafnið Ólgusjór, var í framhaldinu af því gefin út í Þýskalandi, Austurríki, Sviss og Lúxemborg í mars síðastliðnum.
„Planið var að fylgja eftir plötuútgáfunni úti strax í sumar, svo þetta er í raun túrinn sem átti að vera farinn þá. Það var búið að skipuleggja túrinn þá og allt en svo þurftum við að fresta því fram á haust. Það kemur samt ekkert að sök. Nú mætum við bara beint á Airwaves af túrnum, þéttir eftir mikla spilamennsku svo það er bara brjáluð tilhlökkun í gangi fyrir þessu öllu saman,“ segir Davíð Arnar.
Útrunnið vegabréf og ópökkuð taska
„Í raun og veru veit ég svo sem ekki mikið um staðina sem við erum að fara að spila á. Ég veit að Dikta eru að fara að spila á sama stað og við í Leipzig í nóvember og svo spiluðu Agent Fresco á sama stað og við spilum í Búdapest á Evróputúrnum sínum. Þeir sögðu að það væri rosalega flottur staður svo það lofar góðu,“ segir Davíð Arnar aðspurður um hvað bíði strákanna á meginlandinu.
Hljómsveitin kemur til með að ferðast um í langferðabíl með þýskum bílstjóra og þýskum hljóðmanni og heldur sjö tónleika í fimm löndum. Fyrir hvaða áfangastöðum er tilhlökkunin þá mest? „Ég er helvíti spenntur fyrir Mílanó-tónleikunum. Það er náttúrlega flott borg og svo skemmir ekkert fyrir að það er geðveikt veður á Ítalíu núna. Það verður fínt að komast úr kuldanum hér yfir í 20 stiga hita. Svo er ég spenntur fyrir að koma til Ungverjalands, ég hef aldrei komið þangað áður.“
Líkt og liggur í augum uppi þarf að huga að mörgu fyrir svona tónleikaferðalag, til dæmis hefur hljómsveitin líklega æft stíft að undanförnu, en það er ekki síður mikilvægt að huga að praktískum atriðum sem eiga þó til að gleymast. „Helmingur af efninu sem við tökum á tónleikunum er nýtt svo það verður spennandi. Ég er hins vegar ekki búinn að pakka og ég á meira að segja líka eftir að sækja vegabréfið mitt. Ég fattaði það bara í gær að vegabréfið mitt væri útrunnið þannig að það þarf að redda því,“ segir Davíð að lokum og hlær.
Meira í Monitor. Blaðið má lesa í heild sinni hér að neðan.