Engar tilkynningar um tjón

Tjón sem varð í jarðskjálfta á Suðurlandi á árinu 2008.
Tjón sem varð í jarðskjálfta á Suðurlandi á árinu 2008. Kristinn Ingvarsson

Engar tilkynningar um tjón á eignum hafa borist Viðlagatryggingu Íslands í kjölfar jarðskjálftanna sem urðu úti fyrir Norðurlandi um og eftir miðnætti. Eigendur vátryggðra verðmæta sem kunna að hafa orðið fyrir tjóni í nótt eru hvattir til að tilkynna tjón sitt sem allra fyrst.

Hægt er að senda tilkynningar í gegnum vefsvæði Viðlagatryggingar, en þar er hnappur sem heitir „Tilkynna tjón“. Einnig er hægt að senda tölvupóst með tilkynningu um tjón, tjónslýsingu, tjónsstað, tryggingafélag, nafn og símanúmer eiganda/tengiliðar og nafn tryggingataka. 

Eftir að tilkynning hefur borist má reikna með matsmenn hafi samband innan 7-14 daga til að bóka skoðun og mat á eigninni. Mikilvægt er að halda til haga öllu lausafé sem kann að falla undir vátryggingavernd þar til skoðun er lokið.

Í tilkynningu frá Viðlagatryggingu segir að hlutverk stofnunarinnar sé að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara, svo sem eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Allar brunatryggðar fasteignir og lausafé sem tryggt er brunatryggingu njóta vátryggingaverndar Viðlagatryggingar Íslands.

mbl.is