Fann skjálftann vel á Akureyri

Akureyrarkirkja.
Akureyrarkirkja. mbl.is/Ómar Óskarsson

Birgir Steinarsson, íbúi í Langholti á Akureyri, segir að stóri skjálftinn sem varð fyrir norðan Norðurland í nótt, hafi fundist mjög vel í bænum. Sjálfur hafi hann vaknað við drunur og titring.

„Ég vaknaði og heyrði drunur og rúðuna í svefnherbergi titra,“ segir Birgir. „Ég fann þetta mjög greinilega. Mér brá nokkuð. Ég er ekki búinn að búa hérna lengi en hef ekki áður fundið fyrir þessu.“

Mörg hundruð skjálftar hafa orðið á svæðinu frá því í gær. Flestir eru milli 2 og 3 stig en nokkrir hafa mælst yfir 4 og einn var 5,2 stig. Jörð skelfur enn og nú í morgun hafa nokkrir skjálftar rúmlega 3 stig orðið.

Um svokallaða brotaskjálfta er að ræða, því er engin hætta á eldsumbrotum samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.

mbl.is