Kanna ástand jarðganga í dag

Héðinsfjarðargöng.
Héðinsfjarðargöng. mbl.is/Sigurður

Starfsmenn Vegagerðarinnar munu í dag kanna ástand jarðganga á Tröllaskaga í hefðbundnu eftirliti en jarðskjálftahrina gekk yfir Norðurland um helgina sem ekki er enn lokið og fundust skjálftarnir einna helst á Siglufirði og í nágrenni. Ekki er þó gert ráð fyrir að skemmdir hafi orðið á göngunum í skjálftunum.

„Við förum einu sinni í viku eða hálfsmánaðarlega og könnum með viðhald og þá er athugað um leið hvort allt sé ekki í lagi. Þetta er bara hefðbundið eftirlit og ekkert sérstaklega út af þessum jarðskjálftum. En þetta verður kannað í leiðinni,“ segir Sigurður Jónsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Norðurlandi.

„Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um skemmdir eða heyrt neitt af slíku. Menn hafa nú verið duglegir að láta okkur vita ef eitthvað hefur verið að,“ segir hann ennfremur og bætir við að þeir geri því ekki ráð fyrir að skemmdir hafi orðið. En það komi væntanlega í ljós.

„Ég geri nú ekki ráð fyrir að neitt hafi komið fyrir. En almennt séð, miðað við reynslu Japana sem lent hafa í miklum jarðskjálftum, þá færist fjallið með skjálftunum þannig að yfirleitt eru ekkert mikil átök inni í sjálfu fjallinu,“ segir Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðurlandi, spurður hversu stóra jarðskjálfta Héðinsfjarðargöng og önnur jarðgöng á Tröllaskaga þoli.

Hins vegar sé hreyfing skálanna við op jarðganganna sem tengjast fjallinu á eftir fjallinu sjálfu. Þar sé því stundum einhver hætta á að komi sprungur á þeim mörkum en hættan á því eigi engu að síður að vera sáralítil. Samkvæmt kenningunni eigi því einhver öruggasti staður sem hægt sé að vera á við slíkar aðstæður inni í fjallinu.

mbl.is