Skjálftarnir héldu vöku fyrir vistmönnum

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. www.mats.is

„Þetta náttúrlega hélt vöku fyrir fólki þarna í fyrrinótt sérstaklega og olli óróleika sem gefur að skilja. Þannig að það var lítið um svefn fyrri part nætur allavega,“ segir Sigurður Jóhannesson, deildarstjóri hjúkrunarsviðs Heilbrigðisstofnunarinnar í Fjallabyggð í samtali við mbl.is spurður um það hvaða áhrif jarðskjálftarnir sem gengið hafa yfir Norðurland undanfarna sólarhringa hafi haft á vistfólk stofnunarinnar.

Eins og fram hefur komið gekk jarðskjálftahrina yfir Norðurland um helgina sem enn sér ekki fyrir endann á og varð öflugasti skjálftinn aðfaranótt sunnudags en hann mældist 5,6 stig. Skjálftavirknin hélt áfram í nótt og mældist sá stærsti þá 4,1 stig en hann varð um klukkan fimm. Skjálftarnir fundust einna helst á Siglufirði. Eins og mbl.is hefur áður fjallað um áttu ýmsir erfitt með svefn á staðnum vegna skjálftanna.

„Það var greinilega mun skaplegra í nótt. Það var einhver kippur í morgun en það virðist ekki hafa valdið neinum óróleika,“ segir Sigurður spurður hvernig gengið hafi fyrir vistmenn stofnunarinnar að sofa í nótt. Spurður hvort fólk hafi orðið hrætt vegna skjálftanna segir hann að svo hafi vissulega gerst.

„Það er náttúrlega svo að í svona stóru húsi magnast þetta meira. Það skrölti mikið í eldvarnarhurðum hérna sem eru úr málmi. Mun meira en í heimahúsum,“ segir Sigurður ennfremur. Þá hafi glamrað í ýmsum lausum hlutum. Hins vegar hafi sem betur fer ekkert alvarlegt átt sér stað.

mbl.is