„Það veldur mér vonbrigðum að enginn samningur hafi náðst þrátt fyrir tillögu frá Íslandi um umtalsvert minni veiðar. Við erum eftir sem áður reiðubúin að semja um lausn sem dragi úr makrílveiðum allra strandríkjanna byggt á vísindalegri ráðgjöf og sem tryggir sanngjarnan hlut allra á sama tíma og staðið er vörð um stofninn með hagsmuni framtíðarkynslóða fyrir augum.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur sent frá sér í kjölfar þess að ekki náðist samkomulag í makríldeilunni á fundi strandríkja sem lauk í London í dag.
Ráðherrann leggur áherslu á það í yfirlýsingunni að strandríkin beri jafna ábyrgð á því að koma í veg fyrir ofveiði á makrílstofninum og tryggja sjálfbærar veiðar. Það valdi stofninum frekari skaða að ekki hafi enn tekist að ná samkomulagi um lausn á deilunni og um leið efnahag allra ríkjanna.
Steingrímur fagnar hins vegar samkomulagi um að renna styrkari stoðum undir eftirlit með uppsjávarveiðum í norðausturhluta Atlantshafsins enda hafi Ísland lagt áherslu á það í samningaviðræðum um makrílveiðarnar til þessa.
Yfirlýsing Steingríms J. Sigfússonar (á ensku)