„Það er enn of mikið sem aðilum málsins ber á milli til þess að hægt hafi verið að ná samkomulagi,“ er haft eftir Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, á fréttavefnum The Fish Site í dag í kjölfar þess að ekki fannst lausn á makríldeilunni á fundi strandríkja í London sem lauk í gær.
Fram kemur í fréttinni reynt hafi verið að ná samkomulagi í deilunni nokkrum sinnum en án árangurs þar sem hvorki Íslendingar né Færeyingar hafi verið reiðubúnir að sýna neinn sveigjanleika. Engu að síður hafi meðal annars verið samið í London um sameiginlega aðferðafræði við mat á stofnstærð makrílsins.
„Við bíðum enn eftir uppbyggilegum og raunhæfum tillögum frá Íslendingum og Færeyingum svo hægt verði að ná samkomulagi á milli strandríkjanna um skiptingu makrílkvótans,“ segir Berg-Hansen ennfremur.