Ekkert lát á skjálftavirkni

Kort Veðurstofu Íslands sem sýnir skjálftavirkni 25. október 2012.
Kort Veðurstofu Íslands sem sýnir skjálftavirkni 25. október 2012. www.vedur.is

Óvissustig almannavarna, sem lýst var yfir í gær vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi, er enn í gildi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri. Ekkert lát er á hrinunni, sem hófst á laugardaginn, og í nótt mældust tveir skjálftar sem voru meira en þrjú stig, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. 

Sá stærri mældist 3,5 stig og varð klukkan 3:42 norðaustur af Siglufirði, hinn varð klukkan 22:19 norðvestur af Gjögurtá og mældist 3 stig. „Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um að fólk hafi fundið fyrir skjálftunum,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „En það er síður en svo að draga úr virkninni, hún var meiri í nótt en í gærdag. Það er ekki endilega verið að spá stórum skjálfta, en óvissustigið er til þess ætlað að hafa varann á sér.“

Að sögn Benedikts er virknin mest á þremur svæðum; 5 km norðvestur af Gjögurtá, 20 km norðaustur af Siglufirði og 16 km norðvestur af Gjögurtá.

Benedikt segir að þessu valdi Húsavíkur- og Flateyjarmisgengið. Það geti framkvæmt stóra skjálfta og hafi gert það nokkrum sinnum áður, svo vitað sé. „Aðalskjálftavirknin er við vesturenda misgengisins. Þarna hafa stórir skjálftar orðið reglulega, síðast var þarna stór skjálfti, sem talinn er hafa verið 6,5 stig, árið 1872.“ Jafnstór skjálfti varð þarna árið 1838 og árið 1755 varð jarðskjálfti sem talinn er hafa verið 7 stig. Í öllum þessum skjálftum varð talsvert eignatjón.

mbl.is