„Auðvitað viljum við leysa þesa deilu... Við vitum að verðum að leggja eitthvað af mörkum, sýna einhvern sveigjanleika, en það verða líka aðrir að gera... Auðvitað er þetta áróðursstríð og kannski er það bara nýbyrjað,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra um makríldeiluna á fundi LÍÚ.
Sagði Steingrímur umkenningarleikinn myndu halda áfram. Deilan snerist ekki bara um makríll. Hún gæti haft áhrif á samskipti íslenskra fyrirtækja við stórmarkaði. „Staðan í Evrópu er auðvitað ekki mikið ánægjuefni. Sterkir markaðir eru að gefa eftir. Menn vilja lágmarka birgðahald og lagerhald,“ sagði Steingrímur og benti á að mikill þorskur væri að koma úr Barentshafinu.
Ísland ekki lengur einangrað í deilunni
Hvergi yrði gefið eftir í samningaviðræðum við ESB um makríldeiluna. „Ég tel að okkar samninganefnd hafi staðið sig afburðavel,“ sagði Steingrímur og benti á hvernig Íslandi væri ekki lengur einu stillt upp ásamt Færeyingum í deilunni.
„Það er enginn minnsti vafi að sjávarúvegurinn er okkar mikilvægasta gjaldeyrisskapandi grein,“ sagði Steingrímur og benti á hvernig ferðaþjónustan væri að sækja frekar hratt upp að hliðinni að sjávarútveginum.
Mörg ánægjuleg dæmi væru um hliðaruppbyggingu innan sjávarútvegsins.
Ekki dónaleg afkoma
„Já, það hefur verið góðæri í sjávarútveginum... Þetta er ekki dónaleg afkoma fyrir eina atvinnugrein síðustu þrjú ár... Slagar upp í þriðjung veltu þegar best lætur,“ sagði ráðherrann og benti á hvernig EBITDA veiða og vinnslu á verðlagi hvers árs hefði verið 78 milljarðar króna á árinu 2012.
„Ef það þarf að vera jarðarfarasvipur á aðalfundi LÍÚ 2012, hvernig var þá mórallinn 2005, 2006 og 2007?“ spurði Steingrímur.
Kallaði þá einn viðstaddra fram í fyrir Steingrími sem tók því ekki vel. „Ég er með orðið. Þá geri ég það sem fyrir mig er lagt að ræða við ykkur,“ sagði Steingrímur.
Vísar til stjórnlagaráðs
Steingrímur benti jafnframt á það í ræðu sinni að í kosningu um tillögur stjórnlagaráðs hefði niðurstaðan orðið sú að 82,5% þeirra sem afstöðu tóku svöruðu þeirri spurningu játandi að náttúruauðlindir sem eru ekki í einkaeigu skuli vera í þjóðareign.