„Við sögðum aftur á móti á fundinum að staðan væri einfaldlega þannig að allir aðilar málsins hefðu lagt fram tillögur á mismunandi tímum. Þeim hefði öllum verið hafnað af gagnaðila,“ segir Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands í makríldeilunni, í samtali við mbl.is spurður um ásakanir Norðmanna og Evrópusambandsins um að Íslendingar og Færeyingar hafi ekki lagt fram neinar raunhæfar tillögur í deilunni.
„Þeir hafa ásakað okkur um að koma ekki með nýjar tillögur. Ég sagði aftur á móti að við værum allir í sömu sporum að því leyti og sérstaklega undir þeim kringumstæðum sem eru til staðar núna væri útilokað að við kæmum einhliða með einhverjar tilslökunartillögur. Það yrðu allir að koma með nýjar tillögur samtímis,“ segir Sigurgeir og vísar þar til hótana Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum vegna deilunnar.
Spurður um framhaldið segir Sigurgeir að enn sé tími til stefnu til þess að reyna að ná samningum um makrílveiðarnar á næsta ári en Evrópusambandið og Norðmenn fari hins vegar fram á það að Íslendingar og Færeyingar séu reiðubúnir að slaka á kröfum sínum áður en til nýs fundar geti komið.