Tónlistarmaðurinn Borko stendur í ströngu þessa dagana eins og flestir sem vettlingi geta valdið í íslensku tónlistarlífi. Fram á sunnudag mun hann koma fram á alls tólf tónleikum með fjórum hljómsveitum. Mbl fylgdist með honum í dag þar sem hann lék ásamt hljómsveit fyrir KEXP-útvarpsstöðina.
Níu manns hafa ferðast hingað til lands á vegum útvarpsstöðvarinnar, sem er í Seattle í Bandaríkjunum og hefur verið dugleg að kynna íslenska tónlist á undanförnum árum. Eins og frægt er orðið var það upptaka útvarpsstöðvarinnar sem vakti fyrst athygli á hljómsveitinni Of Monsters and Men þar vestra.
Borko lék lög af nýjustu skífu sinni Born to be free sem er nýkomin í búðir en hann fékk einmitt vínylútgáfu af plötunni í hendurnar á meðan mbl. var á staðnum.