„Yfirvegaðir, en hugsi“

Húsavík
Húsavík mbl.is/Rax

Fullt var út úr dyrum á fundi á vegum almannavarna og fleiri aðila á Húsavík síðdegis í dag um skjálftavirkni á Norðurlandi. Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík, segir Húsvíkinga vera „yfirvegaða, en hugsi yfir ástandinu“.

„Hér voru frummælendur sem gerðu grein fyrir ólíkum þáttum ástandsins,“ segir Svavar.

 „Yfirstjórn almannavarna í héraði gerði grein fyrir viðbragðsáætlun og vinnu sem er í gangi og því að nú er orðin til viðbragðsáætlun til að bregðast við þessari sérstöku hættu. Þá upplýstu jarðeðlisfræðingar íbúa um í hverju hættan væri fólgin, fulltrúar frá Viðlagatryggingu Íslands upplýstu fólk um vinnubrögð ef til jarðskjálfta kæmi. Þá voru fulltrúar frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra með ráðgjöf um forvarnir vegna jarðskjálfta.“

Óvissustig er enn í gildi

Svavar segir Húsvíkinga hafa sýnt fundinum mikinn áhuga. „Það var mjög vel mætt á fundinn, hér voru á bilinu 250-300 manns og fullur salur.“

Hvernig leggst ástandið í fólk? „Fólk er frekar yfirvegað, sýnist mér. En það er hugsi, það eru margar spurningar sem leita á fólk í svona aðstæðum.“

Enn er mikil skjálftavirkni á Norðurlandi og því er óvissustig, sem ríkislögreglustjóri lýsti yfir á svæðinu í síðustu viku, enn í gildi að sögn Svavars. „Óvissustigið stendur á meðan ástandið er óbreytt,“ segir hann.

Jarðskjálfti af stærðinni 2,9 mældist skömmu fyrir klukkan 18 í kvöld og annar, næstum því jafnstór eða 2,8, mældist um tvöleytið síðustu nótt. Þá hafa yfir 100 minni skjálftar mælst á svæðinu frá því á miðnætti, samkvæmt vefsíðu Veðurstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina