„Þetta er „zombie-myndband“ sem fjallar um þá panikk sem fylgir því þegar „zombie-heimsendir“ er í nánd,“ segir Flex Árnason, pródúsent og helmingur dúettsins Love & Fog, um splunkunýtt tónlistarmyndband sem dúettinn var að senda frá sér við lag sitt, Body Snatchers. Það er tónlistarmaðurinn Jón Þór sem myndar hinn helming tvíeykisins. „Texti lagsins fjallar um þessar aðstæður, við erum báðir talsvert hrifnir af svona sci-fi dóti og okkur fannst stemningin í laginu kalla svolítið á þannig texta. Myndbandið fylgir síðan bara textanum í laginu. Það er allt komið í rugl, ekkert verður aftur eins og það var.“
Myndbandið er í leikstjórn Óttars Más Ingólfssonar en hann sá einnig um kvikmyndatöku og klippingu og segist Flex honum virkilega þakklátur, en hvar nálguðust þeir allan þennan fjölda af uppvakningum? „Það var bara hóað í vini og vandamenn sem hjálpuðu okkur að gera þetta að veruleika. Haukur í Morðingjunum fer á kostum sem fyrsti „zombie-inn“ og síðan má sjá glitta í Óskar og Alex úr hljómsveitinni Vintage Caravan. Eddi vinur minn var glæsilegur í þessu líka, hann spilar með mér í annarri hljómsveit. Síðan bara makar og vinir, dóttir mín slapp ekki einu sinni. Hún var skelfileg alveg hreint sem leiðtogi „zombie-anna“.“
Flex Árnason og Jón Þór Ólafsson störfuðu áður saman í hljómsveitinni Dynamo Fog, sem sá fyrrnefndi sagði svo skilið við á sínum tíma. „Eftir smá pásu komumst við að því að það væri alltof gaman að gera tónlist saman þannig að við byrjuðum aftur, bara tveir í þetta skiptið. Samstarfið gengur ótrúlega vel og þó að við hittumst ekki oft þá verður músíkin til gríðarlega áreynslulaust.“
Hljómsveitin kemur fram á Airwaves á Amsterdam á fimmtudagskvöldið kl. 20:50. Þá spila þeir á „off venue-giggum“ á fimmtudagskvöldinu kl. 19 á Úrillu górillunni í Austurstræti og á Restaurant Reykjavík á laugardaginn kl. 15.
Myndbandið má sjá hér að neðan: