Ætla sér að komast yfir aðra manneskju

„Við verðum alltaf að muna að það eru einstaklingar sem …
„Við verðum alltaf að muna að það eru einstaklingar sem ætla sér með ásetningi að komast yfir manneskju og þá eru notuð öll ráð til þess,“ segir verkefnastjóri neyðarmóttökunnar. mbl.is/Kristinn

Árlega koma 5-7 mál á borð neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis þar sem grunur leikur á að manneskju hafi verið byrlað nauðgunarlyf. Verkefnisstjóri neyðarmóttökunnar segir erfitt að meta málin og ekki hafi verið hægt að sýna fram á með rannsóknum að þeim hafi verið byrlað slík lyf.

Í sumum tilvikum sé það vegna þess að leitað hafi verið of seint til neyðarmóttökunnar eða vegna þess að komið hafi í ljós að viðkomandi hafi neytt áfengis eða ólöglegra vímugjafa. 

„Við tökum manneskjur trúanlegar og við höfum enga ástæðu til að ætla annað en að þessi lyf séu mikið notuð hér á landi alveg eins og erlendis. Bæði hvort sem það er Rohypnol eða smjörsýra, eða hvað það er,“ segir Eyrún Jónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttökunnar, í samtali við mbl.is.

„Við verðum alltaf að muna að það eru einstaklingar sem ætla sér með ásetningi að komast yfir manneskju og þá eru notuð öll ráð til þess,“ segir Eyrún ennfremur.

Áhrif áfengis og ólöglegra vímugjafa vanmetin

Þá bendir hún á, að konur sem leiti til neyðarmóttökunnar, sem telji sig hafa verið byrlað ólyfjan, segist hafa orðið fyrir skyndilegum áhrifum. „Jafnvel óminni sem er ekki í neinu samræmi við það sem þær hafa verið að drekka,“ segir Eyrún og bætir við að konurnar segi þetta lífsreynslu sem þær hafi ekki upplifað áður.

Eyrún tekur þó fram að erfitt sé að meta þessi mál því þeim tengist yfirleitt neysla á áfengi. Reynslan sýni að langoftast megi rekja óminnisástand til ofneyslu áfengis þar sem viðkomandi sé í áfengisdái.

Þá segir Eyrún að það gleymist oft í umræðunni á hvaða tíma sólarhringsins viðkomandi verði fyrir þessum áhrifum. Þetta sé oftar en ekki mjög seint um nætur þegar manneskjan sé orðin þreytt og undir áhrifum vímugjafa.

„Það er erfitt að skera úr um það hvað er hvað, af því að fólk vanmetur alltaf áhrif t.d. af víni. Það eru um 60-70% þeirra - eða meira - sem leita til okkar sem hefur neytt áfengis. Og af þeim er stór hluti sem man ekki eftir atburðinum og hefur ekki getað komið í veg fyrir atburð.“

Brotið á einstaklingum sem geta ekki varið sig

Hún bendir á að það sé í verkahring lögreglunnar að rannsaka þessi mál. Í þeim málum  sem send hafa verið til rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum þá hefur mönnum ekki tekist að sýna fram á að viðkomandi hafi verið byrlað nauðgunarlyf. Eyrún segir að sama sé uppi á teningnum í nágrannaríkjunum. „Það er kannski vegna að manneskjan kom of seint en líka að áhrif af öðrum lyfjum hafa verið vanmetin.“

Að mati Eyrúnar er aðalatriðið hins vegar það að hvort sem verið sé að nota nauðgunarlyf eða önnur efni, þá sé það staðreynd að verið sé að brjóta á fólki sem geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér. „Það er náttúrulega alvarlegur glæpur,“ segir Eyrún að lokum.

Frétt mbl.is: „Ertu að sjá hvað er í glasinu?“

Frétt mbl.is: „Ég var bjargarlaus“

Eyrún Jónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis.
Eyrún Jónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis. mbl.is/ÞÖK
mbl.is