Útvarpsstöðin KEXP sem staðsett er í Seattle sendi tvo menn á Airwaves hátíðina árið 2009, nú eru níu manns frá útvarpsstöðinni sem senda út tónleika beint frá hátíðinni og gera upptökur fyrir vef stöðvarinnar.
Jim Beckman, vefstjóri stöðvarinnar, segir að hlustendur stöðvarinnar hafi verið afar móttækilegir fyrir íslenskum tónlistarmönnum sem margir hverjir hafi fengið mikla athygli í gegn um stöðina og nefnir í því samhengi Sóleyju og Of Monsters and Men. Níu manns hafa ferðast hingað til lands á vegum útvarpsstöðvarinnar, sem er í Seattle í Bandaríkjunum og hefur verið dugleg að kynna íslenska tónlist á undanförnum árum.
Eins og frægt er orðið var það upptaka útvarpsstöðvarinnar sem vakti fyrst athygli á hljómsveitinni Of Monsters and Men þar vestra.
Beckman segir fjölbreytni og gæði vera helstu einkenni tónlistarlífsins hér á landi en af fimmtán tónlistaratriðum sem stöðin mun senda út á næstu dögum eru 12 þeirra íslensk. Beckman segir það vera stöðinni ánægja að koma íslenskum tónlistarmönnum á framfæri þar sem hlustendahópurinn hér á landi sé augljóslega fámennur.