Menn rífast ekki við náttúruna

Frá Airwaves hátíðinni árið 2010.
Frá Airwaves hátíðinni árið 2010. mbl.is/Ernir

Ein erlend hljómsveit hefur afboðað komu sína á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina vegna fellibylsins Sandy. Kamilla Ingibergsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Iceland Airwaves, segir að það sé hljómsveitin Swans frá New York.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum sem hefur smíðað smáforrit, eða svokallað app, sem heldur utan um hátíðina. Þar er hægt að fylgjast með afleiðingum fellibyljarins Sandy á dagskrá Airwaves. Verði frekari afföll þá sjáist það í appinu.

„Enginn þarf að fara fýluferð í miðbæinn breytist dagskráin. Appið er með réttar tímasetningar og staðsetningar tónleika á hreinu. Það uppfærist,“ segir Magnús Magnússon, sérfræðingur í markaðsþróun Símans.

„Maður rífst ekki við móður náttúru,“ segir Kamilla Ingibergsdóttir. „Mugison verður bjargvætturinn og hleypur í skarðið. Þetta er það sem við vitum. Við reiknum ekki með frekari afföllum á þessari stundu,“ segir hún ennfremur.

Þá segir í tilkynningu frá Símanum, að 4.000 hafi sótt app Símans í kringum Iceland Airwaves hátíðina í fyrra. Metið hafi nú þegar verið slegið því rétt um 4.300 hafi sótt appið fyrir Airwaves 2012.

mbl.is