David Fricke, einn helsti tónlistarblaðamaður Bandaríkjanna er mættur aftur á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina þó að það hafi staðið tæpt í ár.
Óvíst var um komu hans hingað til lands vegna fellibylsins Sandy sem hefur valdið miklu tjóni á norðausturströnd Bandaríkjanna síðustu daga. Samgöngur hafa legið niðri og flugáætlanir verið óáreiðanlegar, sem hefur sett strik í reikninginn fyrir hann sem og aðra bandaríska tónleikagesti Iceland Airwaves.
David er hingað kominn á vegum tímaritsins sem hann hefur starfað hjá til fjölda ára, Rolling Stone. Mun hann skrifa umfjallanir um þá tónlistarviðburði sem hann nær að fylgjast með á tónlistarhátíðinni líkt og hann hefur gert undanfarin ár.
Þrátt fyrir að vera sólarhring á eftir í ferðaáætlun sinni, gaf hann sér tíma til að setjast niður með blaðamanni og ræða íslensk tónlistareinkenni, Iceland Airwaves hátíðina, starf sitt – og Sandy.
Þó að fellibylurinn Sandy sé nú í rénun, ríkir enn neyðarástand í New York. Hvernig er andrúmsloftið meðal almennings þessa dagana?
„Andrúmsloftið er frekar ógnvekjandi. Þetta er búið að vera skelfilegt ástand og samgöngur hafa legið alveg niðri. Í borg eins og New York, þar sem nánast allir reiða sig á almenningssamgöngur, eru því skólar og störf í lamasessi.“
Hvernig líður þér þá yfir því að fara frá vinum og samstarfsfélögum þegar ástandið er svona á heimaslóðum?
„Vissulega er það skrítin tilfinning. Það er ekki laust við að ég finni fyrir samviskubiti að fara frá öllum einmitt núna, en ég er hérna á vegum vinnunnar minnar og þetta er bara eitt af því sem ég þarf að gera. Ég hef töluverðar áhyggjur af vinafólki mínu í New Jersey því ég veit að þau hafa lent í flóðum. Ég veit ekki hversu mikill skaðinn er hjá þeim.“
Hvernig verðu dögunum þínum á Íslandi?
„Ég er mikill áhugamaður um miðaldarsögur og heillast af Íslendingasögunum. Ég mun vonandi ná að fara í Þjóðmenningarhúsið og skoða gömul handrit og bókmenntir frá miðöldum, en annars er ég alltaf hrifinn af því að rölta um borgina og gramsa í hillum plötuverslana. Ég hlusta helst aldrei á tónlist í Mp3 eða í tölvunni og kýs frekar að heimsækja plötubúðir borgarinnar og spjalla við starfsfólk sem og aðra viðskiptavini um gamla og nýja tónlist. Ég hef kynnst fullt af íslenskri tónlist í plötubúðunum.“
Hefur þú eitthvað ferðast um Ísland?
„Ég hef aldrei farið í neinar langferðir en hef farið í styttri dagsferðir í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég geri mest af því að vera í Reykjavík og rölta um svæðið. Ég á marga vini hérna núorðið sem ég hef gaman af því að hitta og hef náð að tengjast landi og þjóð þannig að ég nýt þess bara að vera hérna.“
Af hverju kemur þú reglulega á Iceland Airwaves hátíðina, er þetta ekki tiltölulega lítil hátíð á heimsmælikvarða?
„Jú, hún er lítil hvað varðar fjölda tónlistarviðburða. Miðað við til dæmis South by Southwest tónlistarhátíðina í Texas þar sem þúsundir tónleika eru í gangi á fimm dögum er þetta lítill viðburður en þetta er mjög listræn hátíð þar sem fjöldinn allur af skapandi og frjóu tónlistarfólki er að spila og andrúmsloftið hérna því sérstakt að því leytinu til. Hér ríkir mjög mikil nánd við listamennina því að tónlistarvettvangurinn er lítill og því næst ákveðin einlægni í flutningnum sem ég finn ekki alltaf annarsstaðar. Það er líka stemning í því að fylgjast með hljómsveitum á þeirra eigin heimaslóðum. Ísland er fallegt land og hér er svalt fólk. Þú þyrftir að vera bjáni að koma ekki hingað“
Nýja tónlistarhúsið okkar Íslendinga, Harpa, er stór á íslenskum mælikvarða. Finnst þér stemningin um nándina glatast þegar þú ferð á tónleika þar?
„Nei, alls ekki. Mér finnst hún skemmtileg viðbót í þessa hátíð. Það er enn hægt að fara á alla litlu staðina og Harpa býður bara upp á enn meiri vídd og möguleika til að njóta góðrar tónlistar. Það væri heimskulegt að nýta ekki jafn flott tónlistarhús og Harpa er.“
Er eitthvað sem einkennir íslenska tónlist að þínu mati?
„Það er oftast hægt að heyra hvaðan tónlist á rætur sínar að rekja. Íslensk tónlist er til að mynda ólík bandarískri því menningin, krafturinn og andrúmsloftið sem fylgir er mismunandi eftir löndum. Ég get ekki endilega bent á eitthvað eitt sem einkennir íslenska tónlist en það er ákveðinn sköpunarkraftur og stemning hér sem hægt er að greina frá annarri tónlist.“
Þú hlýtur að þurfa að ferðast mikið á vegum vinnunnar, verður þú aldrei þreyttur á þessu flakki heimshorna á milli?
„Nei, ég nýt þess að ferðast og koma á nýjar slóðir. Jafnframt finnst mér alltaf jafn gott að koma á staði sem ég er orðinn vel kunnugur, eins og hingað. Ég er svo heppinn að vera að starfa við það sem ég vil gera, að skrifa um tónlist, og í þessu starfi kynnist ég mörgu góðu fólki sem er jafnvel vinir mínir í dag. Þegar heim er komið taka svo skrifin við og það getur reynst þrautinni þyngri. Það er aldrei auðvelt að skrifa, það er alltaf krefjandi og erfitt, en sem betur fer elska ég það líka og finnst alltaf skemmtilegt í vinnunni minni.“
Býður þetta starf upp á eitthvað fjölskyldulíf?
„Ég vinn ótrúlega mikið en hefðbundinn vinnudagur er tólf til fjórtán klukkustundir á dag og oft er ég lengur. Jafnframt ferðast ég mjög mikið en eiginkona mín hefur endrum eins viljað koma með á tónleika, sérstaklega ef það eru jazz tónleikar en hún er mikill jazz-unnandi. Annars eru svona tónlistarviðburðir vinnutengdir; ég kem hingað til að vinna og kem því einn.“
Þú hefur áratuga reynslu sem tónlistarblaðamaður, verður þú aldrei stressaður þegar þú tekur viðtöl við heimsfræga listamenn?
„Jú, ég verð oft stressaður. Ef þetta starf væri auðvelt, þá væru örugglega allir að sinna því. Ég reyni samt að taka viðtöl á þá leið að ég og viðmælandi minn séum bara að spjalla. Ég nota alltaf upptökutæki og skrifa eiginlega aldrei niður á blað á meðan viðkomandi talar, því þá er ég ekki að horfa á hann og hlusta. Ég vil einbeita mér að því að hlusta og á til dæmis ekki gsm-síma því mér finnst hann oft valda mikilli truflun í raunverulegum samskiptum á milli fólks. Ekki misskilja mig, ég er enginn fornaldarmaður, ég á Ipad og tölvu svo það er hægt að ná í mig en það þarf bara að skipuleggja sig aðeins betur. Ég hef lært blaðamennsku á reynslunni einni. Ég er ekki með neina blaðamennskumenntun og hef þurft að læra af mistökum mínum eins og allir aðrir. Það getur enginn kennt þér að skrifa. Þú getur fengið leiðsögn og gagnrýni en skrif koma með reynslunni og enginn getur gert það fyrir þig.“
Að lokum, hvaða tónleika á Iceland Airwaves stefnir þú á að fylgjast með í ár?
„Það er búið að vera mikið að gera hjá mér undanfarna daga og fellibylurinn setti strik í reikninginn líka, svo ég hef ekki náð að kynna mér dagskrána í ár. Ég veit bara að ég ætla að horfa á Sigur Rós á sunnudaginn, enda er ég mikill aðdáandi þeirrar sveitar. Ég vil ekki ákveða of mikið fyrirfram hvað ég ætla að sjá, heldur vil ég frekar láta það bara koma í ljós. Ég verð aðallega á röltinu og kíki inn hér og þar.“