„Okkur Biskupum er mikið í mun að sýna okkar bestu hliðar, því aldrei er að vita nema blaða- og meikmenn frá útlöndum villist í miðbænum og rati óvart inn á Blettinn,“ segir Stefán Hilmarsson, frontmaður Sálarinnar hans Jóns míns, á léttu nótunum aðspurður frétta af tónleikum sveitarinnar á Spot annað kvöld. Í tilefni Airwaves-hátíðarinnar ætla Sálverjar að koma fram undir nafninu Beaten Bishops en það kölluðu þeir sig í upphafi tíunda áratugarins þegar þeir reyndu fyrir sér erlendis. „Við héldum í víking og lékum á nokkrum kynningargiggum í Skandinavíu og einnig í Þýskalandi,“ rifjar Stefán upp. „En það var svo mikið að gera hjá okkur hér heima á þessum tíma, að við vorum alveg með hugann hér og máttum ekki vera að því að sinna meikinu af neinum krafti,“ bætir hann við.
Öllu til tjaldað
„Í árdaga Airwaves vorum við beðnir að koma fram eitthvert kvöldið en höfðum ekki tök á því þá. Við erum svolítið hissa að hafa ekki fengið boð um það aftur, erum jafnvel pínu skúffaðir,“ segir Stefán kíminn og bætir við að nú séu þeir klárir í meik og ætli sér að nýta meðbyrinn sem fylgir Airwaves-hátíðinni og slá því upp gigginu á laugardaginn. „Það má reyndar segja að Spot sé ansi vel fyrir utan aðalsvæði hátíðarinnar og meira „off-venue“ en nokkurt annað gigg.“
Á laugardagskvöld verður öllu til tjaldað og mikið í lagt. „Þetta er í fyrsta skipti um árabil sem Beaten Bishops koma fram og ætlum við meðal annars að flytja verk af hljómplötunni „Where‘s My Destiny?“ og auðvitað fleiri skífum og kassettum sem Biskupar og Sálverjar hafa komið að í gegnum tíðina,“ segir Stefán. Hann segir jafnframt að Biskupum sé í mun að sýna sínar bestu hliðar fari svo að meikmenn flækist inn á giggið. „Það er aldrei að vita og þá fá Biskuparnir þá athygli ytra sem þeir verðskulda að margra mati, að minnsta kosti mæðra okkar flestra,“ segir Stefán og glottir.
Sala miða hefst á Spot uppúr klukkan 21.00 á laugardagskvöldið og er áætlað að Stefán og félagar stígi á svið í kringum miðnættið.
Meira í Monitor. Blaðið má skoða í heild sinni hér að neðan.