„Ég hef sjaldan verið jafn kátur eftir svona hátíð,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves-tónlistahátíðarinnar sem lýkur í kvöld. Um 7.000 manns eru nú saman komin í Laugardalshöll á fyrstu tónleikum Sigur Rósar hér á landi í 4 ár.
Þetta eru fjölmennustu tónleikar Sigurrósar sem selt er inn á hér á landi til þessa og raunar telja tónlistarspekúlantar mbl.is líklegt að met hafi verið slegið í miðasölu á staka tónleika íslenskrar hljómsveitar með þessum tónleikum.
Gengið hefur á ýmsu á Airwaves í ár og setti stormurinn sem gekk yfir landið mark sitt á hátíðina en Grímur ber sig vel. „Það gengur mjög vel. Þetta er búin að vera frábær hátíð. Þrátt fyrir öll þau verkefni sem við höfum þurft að glíma við. Svona auka vesen eins og 1.700 vindstig.“
Hátíðin er gríðarlega vel sótt á hverju ári, bæði af Íslendingum og eins erlendum gestum. „Það voru þúsundir gesta erlendis frá. Eina flugið sem var frestað var frá Bandaríkjunum. Þannig að það eru einhverjir tugir sem ekki komust. Bærinn er fullur af fólki í dag. Allir veitingastaðir og annað troðfullt á sunnudegi. Það er nú ekki vaninn,“ segir Grímur.
- Hvað eruð þið að áætla með fjölda erlendis frá?
„Það eru 4.000 útlendingar hérna, það er að segja þeir sem eru með miða á hátíðina. En sumir eru að koma af því að það er svo mikið utan dagskrár og það auðvitað eru margir sem fara á það bara. Það eru fjögur þúsund manns að minnsta kosti hérna. Það er alveg stórkostlegt.“
- Það eru stórir tónleikar í kvöld. Er uppselt á þá?
„Hápunkturinn er Sigur Rós. Þetta er í stærri Laugardalshöllinni og ég held að, með fullri virðingu fyrir Eagles, þá sé þetta fullorðins, þetta „show“ sem er verið að bjóða upp á í höllinni í kvöld. Þó að menn hafi ekki áhuga á tónlistinni er augnakonfektið ótrúlegt. Það er verið að tjalda öllu til.“
- Er svo ekki nóg við að vera eftir Sigur Rós í kvöld?
„Það byrja tónleikar klukkan níu í kvöld á þremur stöðum í Reykjavík, þar sem við ljúkum hátíðinni. Við ljúkum henni með dagskrá á Amsterdam, Gauknum og Þýska barnum. Þetta eru auðvitað allt minni staðir en grunnurinn í Airwaves er að kynna einmitt nýja íslenska tónlist fyrir fólki og auðvitað nýja erlenda tónlist. En það verður hægt að halda rosalega fína tónleika í kvöld.“
Óhætt er að segja að nóg sé um að vera á þessu lokakvöldi Iceland Airwaves, sem nú er haldin í 14. skipti. Tónleikar verða á þremur stöðum í borginni á eftir Sigur Rósar tónleikunum í Laugardalshöllinni. Samkvæmt dagskránni hófust þeir allir klukkan 21 og á klukkutíma fresti koma ný bönd á sviðið á öllum stöðum. Hátíðin endar með þrennum tónleikum á miðnætti.
Á skemmtistaðnum Amsterdam munu hljómsveitirnar Two Tickets to Japan, Saytan, Hellvar og Momentum skemmta gestum. Á Gamla Gauknum troða upp Bárujárn, Hljómsveitin Ég, Skálmöld og Ultra Mega Technobandið Stefán. Á Þýska barnum koma svo fram Jón Þór, Elín Ey, Sometime og Boogie Trouble.
Í huga margra eru þó tónleikarnir sem nú standa sem hæst í Laugardalshöll án efa hápunktur hátíðarinnar í ár, enda er Sigur Rós stærsta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu og á sér gríðarmarga aðdáendur bæði hérlendis og erlendis.