Benedikt sextándi páfi ætlar að koma sér upp twittersíðu í þágu útbreiðslu fagnaðarerindisins til fylgismanna sinna um veröld víða. Talsmaður Páfagarðs, Federico Lombardi, sagði að páfi myndi taka þessa miðlunartækni í þjónustu sína kringum áramótin næstkomandi.
Lombardi sagði að við fyrsta tækifæri yrði gefið upp hvert tístfang páfa verður. Meðal líklegra er @BenedictusPPXVI sem skráð var fyrr á árinu og á þegar 2.900 fylgjendur þótt ekki hafi það enn verið notað til skeytasendinga.
Embættismenn í Vatikaninu segja að twittersíða páfa verði brúkuð til að koma kjarnanum í boðskap páfa á framfæri. Einnig verði þar að finna tengingar í ræður páfa og ákall um samstöðu með bágstöddum löndum.
Eigi mun páfi sjálfur sinna skrifum heldur starfsmenn í Vatikaninu. Textinn mun þó aðeins sendur út hafi Benedikt páfi lagt blessun sína yfir hann.
Fréttaþjónustan I.Media, sem sérhæfir sig í málefnum Páfagarðs, segir að twittersíða páfa sé löngu frágengin en vegna hneykslismála, svonefnds Vatileaks-hneykslis, hafi verið slegið á frest að greina frá henni.
Fjöldi kardinála kaþólsku kirkjunnar og biskupar brúkar twitter og tístir að staðaldri. Páfi mun aðeins einu sinni hafa sent tíst, í júni í fyrra er hann ýtti nýrri upplýsingasíðu Vatikansins úr vör. „Kæru vinir, ég var í þessu að opna www.news.va. Lof sé drottni vorum Jesú Kristi! Bænir mínar og blessun eru ykkar, Benedictus XVI,“ hljóðaði fyrsta og eina tíst páfa.