Um 40-50 Bretar sóttu fund sem íslensk stjórnvöld héldu með fiskkaupmönnum og fleirum á Humber-svæðinu í Bretlandi í gær. Sigurgeir Þorgeirsson í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að fundurinn hafi verið góður og sjónarmið Íslendinga í makríldeilunni hafi notið skilnings á fundinum.
Íslendingar selja mikið magn af fiski til Bretlands á hverju ári, en honum er aðallega dreift í gegnum Hull og Grimsby. Sigurgeir segir að fiskkaupmenn og fleiri sem tengjast fiskviðskiptum frá Íslandi hafi verið boðaðir á fundinn. „Tilgangurinn var að upplýsa þá um okkar málstað og afstöðu í makríldeilunni og fræði þá um stöðuna.“
Benedikt Jónsson, sendiherra í London, flutti inngangsávarp á fundinum. Sigurgeir gerði grein fyrir pólitískri afstöðu íslenskra stjórnvalda og á hvaða grunni Íslendingar reistu kröfur sínar í málinu. Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, gerði ítarleg grein fyrir makrílnum, hvernig göngumynstur hans hefði breyst og hvers vegna talið væri að það hefði gerst.
„Við fengum góðar viðtökur. Þessir menn hafa áhyggjur af því hvað gerist ef kemur til einhverra alvarlegra viðskiptaþvingana. Þeim finnst líka allt mjög óljóst hvernig rætt er um þvinganir og hvaða möguleikar eru fyrir hendi,“ sagði Sigurgeir.
Evrópusambandsins hefur sett reglugerð sem heimilar ESB að beita ríki refsiaðgerðum sem sambandið telur stunda ósjálfbærar veiðar á deilistofni. Ekkert liggur hins vegar fyrir hvort, hvenær eða hvernig þessum reglum verður beitt.
Sjónarmið Íslendinga í deilunni koma m.a. fram í frétt á fishnewseu.com. Sjómenn í Skotlandi eru hins vegar ekkert sérstaklega ánægðir með að íslensk stjórnvöld skuli hafa haldið kynningarfund í Bretlandi um makríldeiluna, sbr. þessa frétt.