Þingmenn Evrópuþingsins og stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefan Füle, gera sér illa grein fyrir því hvernig andrúmsloftið gagnvart aðildarviðræðunum er hér á landi. Þetta var upplifun Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokks, af fundum sem sjö alþingismenn áttu í Strassburg í vikunni.
Ragnheiður Elín vakti máls á ferð þingmannanefndar Alþingis til Strassburg við upphaf þingfundar í morgun. Nefndin var sett á laggirnar samkvæmt meirihlutaáliti Alþingis þegar aðildarumsóknin um Evrópusambandið var send inn til að tryggja aðkomu þingsins og þátttöku í þessum viðræðum og Ragnheiður Elín sagði það hafa sýnt sig í ferðinni að þetta nefndarstarf væri mikilvægt.
„Því það var upplifun mín af þessum fundi í Strassburg í vikunni að þingmenn á Evrópuþinginu og ekki síður stækkunarstjóri Evrópusambandsins voru ekki alveg með það á hreinu hvernig andrúmsloftið er hér heima. Ég held að þessir aðilar fái alla jafna ekki skilaboðin beint í æð, eins og gerðist á þessum fundi í Strassburg.“
Ragnheiður Elín sagði að umræður fundarins hafi verið afar góðar og íslensku þingmennirnir hefðu lagt fram 21 spurningu sem Stefan Füle ætli að svara skriflega á næstunni. „Ég vil ítreka mikilvægi þess að Evrópuþingið og Evrópusambandið fái að heyra báðar hliðar þessa máls, hver raunveruleg staða aðildarumsóknar er hér á landi.“