Frumvarp um stjórn fiskveiða hefur verið sent þingflokkum til kynningar. Þetta staðfestir Huginn Þorsteinsson, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvegaráðherra.
Huginn segir hugsanlegt að frumvarpið verði lagt fram í þessari viku en það velti þó á því hvenær frumvarpið verði afgreitt úr þingflokkum og hvernig störf Alþingis gangi, en önnur umræða um fjárlög fer fram á Alþingi í dag.
Huginn segir að um stórt frumvarp sé að ræða en hinsvegar fylgi því önnur minni frumvörp, hann vildi ekki svara því hvort þau væru eitt eða fleiri. „Þar inni eru atriði sem passa ekki inn í stóra frumvarpið, svona lagfæringar en ekki umdeild atriði þannig,“ segir Huginn og tekur fram að það ráðist að einhverju leyti af afgreiðslu þingflokkanna á málinu.