Umdeild veiðigjöld koma til greiðslu

Eindagi fyrstu greiðslu vegna veiðigjalda sem frestað var fyrr í haust er næst­kom­andi mánu­dag, á morg­un. Skuld­sett­ar út­gerðir eiga rétt á lækk­un á sér­stöku veiðigjaldi vegna vaxta­kostnaðar við kaup á afla­hlut­deild­um. Eindagi átti að vera 15. októ­ber en vegna vinnu við setn­ingu reglu­gerðar um áður­nefnda lækk­un var hon­um frestað. Fiski­stofa hef­ur á und­an­förn­um vik­um unnið að út­reikn­ingi á lækk­un veiðigjalds.

Lækka um tvo millj­arða

Eyþór Björns­son fiski­stofu­stjóri seg­ir að lækk­un vegna þessa verði um 2 millj­arðar. „Útgerðirn­ar senda inn um­sókn um lækk­un og síðan er unnið eft­ir vaxta­kostnaði út­gerðar­inn­ar, það er vaxta­kostnaði vegna kaupa á afla­hlut­deild­um sem ræður því hve mik­ill af­slátt­ur er veitt­ur af veiðigjöld­un­um hverju sinni,“ seg­ir Eyþór.

Sér­staka veiðigjaldið er nú lagt á í fyrsta skipti. Al­mennt veiðigjald lagt á 1. sept­em­ber nam 3,2 millj­örðum en sér­stakt veiðigjald 7,3 millj­örðum. Al­mennt veiðigjald lagt á síðar á fisk­veiðár­inu var áætlað 1,4 millj­arðar og sér­stakt veiðigjald 3 millj­arðar. Sam­tals má því reikna með að sér­stök veiðigjöld á þessu fisk­veiði ári nemi um 8,3 millj­örðum að teknu til­liti til lækk­ana vegna vaxta­greiðslna.

Greidd í fjór­um af­borg­un­um

Veiðigjöld eru greidd í fjór­um jöfn­um af­borg­un­um yfir árið. Því má reikna með að um 1,3 millj­arðar í sér­stakt veiðigjald falli í eindaga á mánu­dag. Ofan á leggj­ast greiðslur vegna al­menna veiðigjalds­ins, um 800 millj­ón­ir. Veiðigjald á afla­mark sem út­hlutað er eft­ir 1. sept­em­ber er lagt á þegar út­hlutað er í viðkom­andi teg­und.

Með samþykkt laga um veiðigjöld sem af­greidd voru frá Alþingi í sum­ar kom til sér­stakt veiðigjald til viðbót­ar við hið al­menna veiðigjald. „Viðbót­in er sér­staka veiðigjaldið. Al­menna veiðigjaldið hækkaði að vísu ör­lítið. Við út­reikn­ing á sér­staka veiðigjald­inu er mik­il­vægt að hafa í huga að út­gerð sem á aðeins 30 þúsund þorskí­gildis­kíló greiðir ekk­ert gjald, af næstu 70 þúsund þorskí­gildis­kíló­um greiðist hálft gjald en af þorskí­gildis­kíló­um um­fram 100 þúsund greiðist fullt gjald,“ seg­ir Eyþór.

Í nýju lög­un­um kem­ur fram að í ár eru greidd­ar 9,50 krón­ur í al­mennt veiðigjald fyr­ir hvert þorskí­gildis­kíló af öll­um afla. Í sér­stakt veiðigjald greiðast 23.30 kr. á hvert þorskí­gildis­kíló í botn­fiskafla og 27,50 á hvert þorskí­gildis­kíló í upp­sjáv­ar­fiski.

Breytt­ar for­send­ur hafa mik­il áhrif á rekst­ur út­gerðanna

Garðar Ólason, út­gerðarmaður í Gríms­ey og einn af eig­end­um Sig­ur­björns ehf., seg­ir að fyr­ir­tækið hafi upp­haf­lega átt að greiða 18 millj­ón­ir kr. í sér­staka veiðigjaldið. Sig­ur­björn ehf. er með fjóra báta, er reynd­ar að selja einn þeirra og er með 800-900 tonna kvóta. „Við vit­um svo sem ekk­ert hver lækk­un­in vegna vaxta­kostnaðar verður, höf­um ekk­ert fengið að vita hvernig það gæti litið út,“ seg­ir Garðar. En fyr­ir­tækið sendi inn beiðni um lækk­un veiðigjalda út af vaxta­kostnaði vegna kaupa á afla­hlut­deild. Aðspurður seg­ist hann ekki hafa gert ráðstaf­an­ir vegna til­komu sér­staka veiðigjalds­ins og hugs­an­legra breyt­inga þess vegna.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: