Áætlað er að Herjólfur komi úr slipp í Hafnarfirði 11. desember, þriðjudaginn í næstu viku og að hann verði kominn í þjónustu daginn eftir.
Þetta segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, en leggur áherslu á að þessar dagsetningar miði við að allt gangi eftir.
Herjólfur fór í slipp eftir að bakborðsstýri og -skrúfa skemmdust er hann rakst í vestari hafnargarðinn við Landeyjahöfn fyrir tæpum tveimur vikum. Vinna við viðgerð á skrúfublöðum bakborðsskrúfu hefur tekið lengri tíma en búist var við, en eitt blað brotnaði og þrjú löskuðust.
Jafnframt snerist stýrið lítillega bakborðsmegin.