Handtaka í tengslum við hópnauðgun

Konur eru sagðar ekki búa við mikið öryggi í Nýju …
Konur eru sagðar ekki búa við mikið öryggi í Nýju Delí, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. AFP

Indverska lögreglan hefur handtekið ökumann strætisvagns í Nýju-Delí, höfuðborg landsins, í tengslum við hópnauðgun sem var framin í strætisvagni í borginni í gærkvöldi.

Ráðist var á 23 ára gamla konu og karlkyns vin hennar. Þeim var misþyrmt, þau afklædd og þeim hent út úr vagninum.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að lögreglan segi að eftirlitsmyndavélar hafi náð myndum af hinum grunuðu. Lögreglan segir ennfremur að a.m.k. fjórir menn hafi ráðist á þau.

Árásin hefur vakið hörð viðbrögð í Nýju-Delí, en því hefur verið oft verið haldið fram að konur búi ekki við mikið öryggi í borginni. Fréttaskýrendur segja að hlutfall nauðgana í borginni sé mun hærra en í öðrum indverskum borgum sem eru svipaðar að stærð.

Konan og maðurinn sem urðu fyrir árásinni voru að ferðast frá Munirka-héraðinu til Dwarka, sem er í suðvesturhluta Nýju-Delí.

Þau voru flutt á sjúkrahús og er konan sögð vera lífshættulega særð eftir árásina.

Lögreglustjórinn Chhaya Sharma bað í dag almenning um aðstoð við að hafa uppi á ökumanni strætisvagnsins.

mbl.is