„Það er ljóst að Íslendingar og Færeyingar eru enn eina ferðina ekki reiðubúnir að koma að borðinu með sanngjarnar kröfur vegna makrílsins á þessu ári,“ sagði Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, fyrir fund sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins sem fram fór í gær samkvæmt fréttavefnum Fishupdate.com.
Ráðherrann lagði áherslu á að án alþjóðlegs samnings um stjórn veiða úr makrílstofninum í Norðaustur-Atlantshafi væri framtíð írskra sjávarútvegsfyrirtækja sem treystu á makrílstofninn ekki björt. Óábyrgar veiðar Íslendinga og Færeyinga úr stofninum myndu að lokum leiða til þess að honum yrði eytt. Afleiðing ástandsins kæmu fram á næsta ári.
Þá sagði Coveney að árangurslausar viðræður Norðmanna og Evrópusambandsins um skiptingu makrílkvótans hefðu komið í framhaldi af viðræðum þeirra við Íslendinga og Færeyinga sem einnig hefðu runnið út í sandinn.
„Við stöndum frammi fyrir erfiðum viðræðum á fyrri hluta írska forsætisins með það að markmiði að ná samningum þar sem það verður mögulegt,“ sagði hann ennfremur en Írar fara með forsætið innan Evrópusambandsins á fyrri hluta næsta árs.