Lögreglan í Nýju-Delhí á Indlandi ákvað að leysa upp mótmæli með kylfum og táragasi. Voru mótmælin haldin í kjölfar grófrar hópnauðgunar í strætisvagni sem átti sér stað um liðna helgi. Kröfðust mótmælendur meira öryggis í landinu fyrir konur, en alda kynferðisofbeldis hefur geisað á Indlandi.
Upptökur sýna mótmælendur við indverska hliðið í miðbæ Nýju-Delhí hrópa: „Við viljum réttlæti.“ Lögreglan átti erfitt með að stýra mannfjöldanum sem fór að brjóta blómapotta og ýmislegt fleira, þar á meðal tákn sem borgaryfirvöld hafa sett upp í þeim tilgangi að fegra Nýju-Delhí. Þegar hluti mótmælenda ætlaði sér í gegnum girðingar lögreglu og að forsetahöllinni var talið að taka þyrfti í taumana.
Stjórnvöld á Indlandi lofuðu á föstudag í kjölfar síharðnandi mótmæla að heimta lífstíðardóma yfir þeim sem stóðu að ódæðinu og að löggæsla yrði hert.
R.K. Singh, innanríkisráðherra Indlands, sagði einnig að ríkið myndi borga lækniskostnað fórnarlambsins, sem er 23 ára gömul og er enn í lífshættu vegna innvortis áverka sem hlutust af árásinni.
Tildrög voru þau að sex drukknir menn réðust að konunni og karlkyns vini hennar og nauðguðu henni. Eftir á hentu þeir parinu af vagninum, sem var á ferð. Samkvæmt lögreglunni var konan lamin með járnstöng í kjölfar nauðgunarinnar. Fimm af hinum grunuðu voru handteknir fljótlega eftir glæpinn og sá sjötti náðist á föstudaginn.
Sérfræðingar segja að virðingarleysi fyrir lögum og lélegt réttarkerfi Indlands leiði til þess að slíkar árásir séu algengar í borginni sem telur 19 milljónir íbúa.