Indverska lögreglan hefur bannað öll mótmæli í miðborg Nýju-Delí, höfuðstað Indlands, í kjölfar átaka sem brutust út í gær, en margir komu saman til að mótmæla hópnauðgun sem ung námskona varð nýverið fyrir.
Mótmælendum hefur verið bannað að fara inn á svæði í nágrenni forsetahallarinnar og þingsins séu bannsvæði. Í gær beitti lögregla táragasi, kylfum og háþrýstidælum á mótmælendur, eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði.
Þúsundir mótmælenda, sem flestir voru háskólastúdentar, komu saman í miðborginni og kröfðust þess að ofbeldismennirnir sem brutu á konunni yrðu dæmdir til dauða. Þá kröfðust þeir að öryggi kvenna yrði tryggt.
Snemma í morgun var lögreglan búin að loka svæðum sem liggja að stjórnarbyggingum í borginni. Þá segist lögreglan hafa handtekið hóp fólks sem kom til að mótmæla. Lögreglan segir að um fyrirbyggjandi aðgerðir sé að ræða.
„Við erum komin til að mótmæla svíðvirðilegum glæp. Við eigum rétt á því að mótmæla,“ hefur Press Trust of India eftir einum mótmælanda.
Hópnauðgunin sem fólkið var að mótmæla átti sér stað sl. sunnudag. Sex ölvaðir menn réðust á konuna og vin hennar í strætisvagni. Þeir skiptust á að nauðga henni og köstuðu svo konunni og manninum út úr vagninum á ferð. Konan hlaut alvarlega áverka, en hún var m.a. slegin með járnkylfu.