Skutu fréttamann til bana

Lögreglan á Indlandi skaut sjónvarpsfréttamanna til bana í dag þegar hún hóf skothríð á hóp fólks sem kom saman til að mótmæla kynferðisofbeldi sem leikkona varð fyrir. 

Maðurinn sem lést var 36 ára gamall og starfaði fyrir Doordarshan fréttastöðina. Atvikið átti sér stað í Imphal, sem er höfuðborg Manipur ríkisins.

Mótmælaalda hefur gengið yfir Indland að undanförnu í kjölfar þess að ungri konu var nauðgað í strætisvagni í Nýju-Delí.

Í Manipur hafa margir lýst óánægju sinni með að vopnuðum uppreisnarmanni hafi tekist að draga þekkta leikkonu, sem heitir Momoko, af sviði fyrir framan fjölda fólks og þrátt fyrir að öryggisgæsla hefði verið á svæðinu. Maðurinn gerði svo tilraun til að nauðga henni en Momoko tókst að komast undan honum. 

Hún kom fram í sjónvarpi þar sem hún hvatti til þess að árásarmaðurinn verði handtekinn.

Mikil reiði er ríkjandi á Indlandi þar sem kynferðisofbeldi gagnvart konum er alvarlegt vandamál.

Almenningur á Indlandi krefst réttlætis.
Almenningur á Indlandi krefst réttlætis. AFP
mbl.is