Indverskur lögreglumaður sem særðist í átökum sem brutust út mótmælum vegna hópnauðgunar lést á sjúkrahúsi í Nýju-Delí í dag. Stærstur hluti miðborgarinnar er lokaður vegna ofbeldisöldunnar sem fylgt hefur mótmælunum.
Hópnauðgunin sem fólkið var að mótmæla átti sér stað fyrir rúmri viku síðan. Sex ölvaðir menn réðust á unga konu og vin hennar í strætisvagni. Þeir skiptust á að nauðga henni og köstuðu svo konunni og manninum út úr vagninum á ferð. Konan hlaut alvarlega áverka, en hún var m.a. slegin með járnkylfu.
Lögreglumaðurinn, Subash Tomar, 47 ára, var barinn og grýttur af óeirðarseggjum er hann reyndi að stilla til friðar í miðborginni á sunnudag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu komst hann aldrei til meðvitundar og lést í morgun. Yfir 50 lögreglumenn slösuðust þegar þeir reyndu að stilla til friðar á sunnudag.
Gríðarleg mótmæli hafa verið í Nýju-Delí allt frá því að ungu konunni var nauðgað þann 16. desember enda fólk búið að fá nóg af ofbeldi sem algengt er að konur verði fyrir í borginni. Tæplega 90% allra ofbeldisglæpa í landinu voru gagnvart konum og fjölgaði nauðgunum um 17% á milli ára. Alls voru ofbeldisglæpirnir 256.329 talsins í fyrra. Í ár hefur verið tilkynnt um 661 nauðgun.
Líðan ungu konunnar versnaði mjög í gærkvöldi og er hún í öndunarvél á gjörgæsludeild.
Í gær flutti forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, sjónvarpsávarp þar sem hann hvatti íbúa Nýju-Delí til að sýna stillingu. Segir hann að nauðgurunum verði refsað fyrir glæp sinn. Hámarksrefsing fyrir nauðgun er lífstíðarfangelsi á Indlandi en hávær krafa er um að nauðgararnir verði teknir af lífi.