Birta nöfn nauðgara á netinu

Mótmælt í Mumbai.
Mótmælt í Mumbai. PUNIT PARANJPE

Stjórnvöld í Indlandi segjast ætla að birta nöfn og heimilisföng dæmdra nauðgara á netinu, ásamt ljósmyndum af þeim, í því skyni að valda þeim opinberri niðurlægingu. Um er að ræða átak til að sporna gegn vaxandi ofbeldi í garð kvenna.

Átakið hefst í Delhi þar sem hrottaleg hópnauðgun átti sér stað fyrr í mánuðinum. Í kjölfarið brutust út mikil mótmæli í Delhi og öðrum borgum þar sem krafist var harðra refsinga yfir mönnunum sex sem hafa verið handteknir fyrir glæpinn. Verða nöfn nauðgara og ýmsar upplýsingar um þá birtar á heimasíðu lögreglunnar í Delhi.

„Við ætlum að takast á við þennan vanda og grípa til allra mögulegra ráðstafana eins fljótt og hægt er,“ segir Ratanjit Pratap Narain Singh, aðstoðarinnanríkisráðherra Indlands. Yfirvöld hafa einnig lofað að herða viðurlög við nauðgunum en sem stendur er hámarksrefsingin 10 ár.

Fórnarlamb nauðgunarinnar, 23 ára háskólanemi, er þungt haldið. Konan var í nótt flutt frá Delhi til Singapúr en hún var einnig lamin með járnstöngum og hent út úr strætisvagni á ferð.

mbl.is