Berst fyrir lífi sínu

Sjúkrabílar fyrir utan Mount Elizabeth-sjúkrahúsið í Singapore í dag.
Sjúkrabílar fyrir utan Mount Elizabeth-sjúkrahúsið í Singapore í dag. AFP

23 ára kona sem varð fyrir hópnauðgun í strætisvagni í indversku borginni Delhi, er enn í lífshættu. Hún var flutt á sjúkrahús í Singapore í gær en þá hafði hún gengist undir þrjár aðgerðir á sjúkrahúsi í Delhi.

Hópnauðgunin hefur vakið upp gífurleg viðbrögð í Indlandi sem og annars staðar í heiminum. Delhi hefur verið kölluð nauðgunarhöfuðborg Indlands og þar hafa fleiri mál af svipuðum toga nú komist í heimsfréttirnar.

Árásin í strætisvagninum átti sér stað 16. desember og í kjölfarið voru sex menn handteknir. Þá hefur tveimur lögreglumönnum verið sagt upp störfum vegna málsins, að því er fram kemur í frétt BBC.

Talið er að konan þurfi líffæraígræðslu. „Hún berst nú fyrir lífi sínu,“ segir Kelvin Loh, forstjóri Mount Elizabeth-sjúkrahússins í Singapore. Hann segir að í ljós hafi komið að konan hafi sýkingu í lungum og kviði og hafi hlotið áverka á heila. Þá hafi hún farið í hjartastopp í kjölfar árásarinnar.

Innanríkisráðherra Indlands segir að konan hafi verið send á sjúkrahús í Singapore samkvæmt ráðleggingum lækna.

Indversk stjórnvöld hafa reynt að slá á reiði almennings með því að auka öryggi m.a. í Delhi. Þannig hefur lögreglumönnum verið fjölgað á næturvöktum og strætisvagnar með skyggðum rúðum eða tjöldum fyrir rúðum verið bannaðir.

mbl.is