Dauði ungrar konu, sem lést í gærkvöld vegna áverka eftir hópnauðgun, er olía á þann reiðield sem blossað hefur upp á Indlandi vegna viðvarandi kynferðisofbeldis gegn konum. Lögregla er í viðbragðsstöðu í dag og biðlar til almennings um að halda ró sinni.
Lík ungu konunnar verður flutt aftur til Indlands, en hún lést í gærkvöldi á sjúkrahúsi í Singapore. Í kjölfar árásarinnar þann 16. desember urðu ofbeldi og óeirðir á Indlandi sem fóru úr böndunum og lést einn lögreglumaður. Sex karlar hafa verið handteknir í tengslum við nauðgunina og tveimur lögreglumönnum vísað frá störfum.
Almenningur haldi ró sinni
Eftir að fréttirnar bárust af dauða konunnar setti lögregla upp vegatálma í miðborg Delhi, lokaði nokkrum lestarstöðvum og bað fólk að koma ekki til borgarinnar. Hundruð vopnaðra lögreglumanna og óeirðarsveitamanna eru á vakt í viðbragðsstöðu. Þar af eru margar konur, en áhersla hefur verið lögð á að fjölga konum í sveitum lögreglu vegna kynferðisofbeldis gegn konum á götum úti.
Að sögn BBC hefur lögreglustjórinn í Delhi, Neeraj Kumar, biðlað til almennings að alda ró sinni. Bann hefur verið sett við því að fleiri en fimm manns komi saman í miðborginni. Að morgni laugardags höfðu þó nokkur hundruð manns safnast saman við Jantar Mantar stjörnuskoðunarstöðinni, einum af fáum stöðum borgarinnar þar sem heimilt er að mótmæla. Þá hafa mótmæli verið boðuð víðs vegar á Indlandi.
Forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, hefur tjáð sig um dauða ungu konunnar og segist harmi sleginn og að reiði almennings sé fullkomlega skiljanleg. „Það væri sannarlega til að heiðra minningu hennar ef okkur tækist að beina þessum tilfinningum og þessari orku í uppbyggilegan farveg,“ sagði ráðherrann í yfirlýsingu.
Hann kallaði eftir því að stjórnmálamenn og almenningur vinni saman að því að gera Indland að „betri og öruggari stað fyrir konur að lifa“.
Misþyrmt með járnstöngum
Unga konan, sem var 23 ára læknanemi, var á leið heim úr bíó ásamt vini sínum þegar á hópur karlmanna réðst á þau í strætisvagni í Munirka hverfinu í Delhi. Lögregla segir að konunni hafi verið nauðgað af mönnunum í tæpa klukkustund, auk þess sem bæði hún og vinur hennar voru barin og henni misþyrmt með járnstöngum.
Árásin virðist hafa verið kornið sem fyllti mælin og hefur hún getið af sér hörð mótmæli yfir stöðu kvenna á Indlandi, sinnuleysi stjórnvalda og vanrækslu lögreglu við að taka á nauðgunarmálum. Stjórnvöld hafa reynt að lægja öldurnar með því að grípa til ýmissa aðgerða til að auka öryggi kvenna, s.s. að fjölga lögreglumönnum á vakt á næturnar og banna strætisvagna með skyggðum rúðum.
Þá hafa verið settar á fót tvær nefndir, önnur til að skoða hvernig hægt verði að hraða meðferð kynferðisbrota í dómskerfinu, og hin til að rannsaka hvað hafi orðið til þess að nauðgunin í Delhi átti sér stað.