Kveikt á kertum í minningu fórnarlambs

Um allt Indland hefur fólk minnst ungu konunnar sem lést í gær á sjúkrahúsi í Singapúr eftir að hafa verið nauðgað hrottalega í strætisvagni í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, þann 16. desember sl.

Kveikt hefur verið á kertum og fólk minnst hennar í þögn en margir krefjast þess að árásarmennirnir verði teknir af lífi fyrir glæp sinn. Sex eru í haldi lögreglu í tengslum við nauðgunina sem hefur beint kastljósinu að alvarlegum ofbeldisglæpum gagnvart konum í landinu.

Yfirvöld hafa lokað stórum hluta miðborgar Nýju-Delí og hundruð vopnaðra lögregluþjóna eru á götum úti. Eins er her landsins í viðbragðsstöðu.

mbl.is