Lík ungrar konu sem lést í Singapúr eftir hópnauðgun fyrr í mánuðinum í Nýju-Delí er um borð í flugvél á leið til Indlands þar sem útför hennar fer fram.
Konan, sem var 23 ára, lést í gær en hún hafði legið milli heims og helju frá því henni var nauðgað hrottalega af hópi karlmanna þann 16. desember sl. Hún var flutt til Singapúr á fimmtudag þar sem reynt var að bjarga lífi hennar á Mount Elizabeth-sjúkrahúsinu en áverkar hennar voru of alvarlegir til þess að hægt væri að bjarga lífi hennar.
Sex menn réðust á konuna og félaga hennar um borð í strætisvagni í Nýju-Delí, þeim misþyrmt og henni nauðgað. Eftir árásina var þeim hent út úr vagninum og skilin eftir í blóði sínu.
Í tilkynningu frá sjúkrahúsinu í Singapúr kemur fram að nokkur líffæri hennar hafi gefið sig en hún var með fjölmarga áverka á innvortis sem útvortis og á heila. Hún komst aldrei til meðvitundar eftir komuna til Singapúr en flutningur hennar milli landa hefur verið gagnrýndur heimavið.
Fjölmargir tóku þátt í mótmælum í Nýju-Delí í dag þar sem kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum var mótmælt.