Ætluðu að gifta sig í febrúar

Fjölmargir kveiktu á kerti í minningu ungu konunnar í Indlandi …
Fjölmargir kveiktu á kerti í minningu ungu konunnar í Indlandi í gærkvöldi. AFP

Unga konan sem lést eftir hrottalega nauðgun í Nýju-Delí ætlaði að ganga í hjónaband með unnusta sínum í febrúar. Hann liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi eftir árásina sem þau urðu fyrir þann 16. desember sl.

Nafn konunnar, sem var 23 ára að aldri, hefur ekki verið gefið upp en vinir hennar hafa tjáð sig við fjölmiðla. Konan var langt komin í námi í læknisfræði en foreldrar hennar höfðu flutt til borgarinnar til þess að hún gæti stundað nám enda afburðanemandi. Faðir hennar vinnur á flugvelli borgarinnar og býr fjölskyldan í mikilli fátækt, samkvæmt fréttum indverskra fjölmiðla.

Konan var að koma úr bíói þar sem hún sá kvikmyndina The Life of Pi með unnusta sínum að kvöldi til. Þau voru í strætó þegar hópur manna réðst á þau, nauðgaði henni og barði þau hrottalega. Að lokum var þeim hent út úr vagninum á ferð og skilin eftir í blóði sínu. Hún var flutt á sjúkrahús í Singapúr á fimmtudag en ekki tókst að bjarga lífi hennar.

Vinkona hennar segir að þrátt fyrir að þau hafi ekki verið formlega trúlofuð hafi hún verið farin að velja fatnað fyrir brúðkaupið og fleira tengt brúðkaupinu. Fleiri vinir og ættingjar staðfesta að brúðkaup hafi staðið til í febrúar og að undirbúningur hafi verið í gangi.

Samkvæmt fréttum indverskra fjölmiðla virðist sem árásarmennirnir hafi ráðist á manninn fyrst í strætisvagninum fyrir að vera með unga ógifta konu á ferli seint um kvöld. Börðu þeir hann með járnstöngum áður en þeir sneru sér að ungu konunni og misþyrmdu henni og nauðguðu.

mbl.is