Mikil öryggisgæsla við útför

Útför ungu konunnar sem lést í fyrrakvöld eftir hrottalega nauðgun um miðjan mánuðinn í Nýju-Delí fór fram í morgun en mikil öryggisgæsla var vegna útfararinnar. Einungis nánasta fjölskylda konunnar var viðstödd útförina.

Flugvél á vegum indversku ríkisstjórnarinnar flutti lík konunnar frá Singapúr í gærkvöldi en þangað hafði hún verið flutt á fimmtudag í þeirri von að hægt væri að bjarga lífi hennar.

Sex menn eru í haldi grunaðir um að hafa nauðgað konunni, sem var 23 ára, hrottalega í strætisvagni þann 16. desember sl. Þeir hentu henni síðan út úr vagninum á ferð ásamt félaga hennar sem einnig var misþyrmt af ódæðismönnunum.

Árásin hefur vakið mikla reiði meðal indversku þjóðarinnar enda þorri almennings búinn að fá nóg af því ofbeldi sem konur hafa orðið fyrir án afskipta í borginni og víðar í landinu.

Þúsundir tóku þátt í friðsamlegum mótmælum víða um Indland í gær og kveiktu mótmælendur á kertum og minntust ungu konunnar, samkvæmt frétt BBC.

Indversku Bollywood söngvararnir Kailash Kher og Sona Mohapatra ásamt leikstjóranum …
Indversku Bollywood söngvararnir Kailash Kher og Sona Mohapatra ásamt leikstjóranum Ram Sampat tóku þátt í friðsamlegum mótmælum í Mumbai í gær AFP
Hluti miðborgar Nýju-Delí er lokaður vegna ótta stjórnvalda um að …
Hluti miðborgar Nýju-Delí er lokaður vegna ótta stjórnvalda um að það sjóði upp úr. AFP
mbl.is