Koma fyrir rétt vegna hópnauðgunar á morgun

Frá mótmælum vegna voðaverksins í strætisvagninum í Nýju-Delí í gær.
Frá mótmælum vegna voðaverksins í strætisvagninum í Nýju-Delí í gær. AFP

Sex karlmenn, sem kærðir hafa verið fyrir að hafa nauðgað 23 ára gamalli konu í strætisvagni í borginni Nýju-Delí á Indlandi, munu koma fyrir dómara á morgun. Þar verða þeir ákærðir fyrir nauðgun, mannrán og morð, en konan lést af völdum áverka sem hún hlaut við árásina.

Voðaverkið hefur meðal annars leitt til þess að fjölmiðlar hafa opnað umræðuna um kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum sem hefur að mestu legið í þagnargildi.

Flestir mannanna eru búsettir í fátækrahverfum borgarinnar og verði þeir fundnir sekir, verða þeir að öllum líkindum dæmdir til dauða. Ekki liggur fyrir hvort einn mannanna hefur náð sakhæfisaldri, sem er 17 ára á Indlandi og mun hann gangast undir rannsókn til að finna út aldur hans. 

1.000 síðna ákæruskjal

Í réttinum á morgun verða lögð fram ítarleg gögn, en ákæruskjalið er 1.000 blaðsíðna langt og þar er meðal annars að finna vitnisburð konunnar sjálfrar sem hún gaf á sjúkrahúsinu og kærasta hennar, sem einnig varð fyrir misþyrmingum mannanna sex. 

Lögmenn í Nýju-Delí hafa tilkynnt að enginn þeirra muni verja mennina, en það þýðir að yfirvöld verða að tilnefna lögmann. 

Vitundarvakning á Indlandi

Glæpurinn hefur vakið heimsathygli, honum hefur verið mótmælt víða um heim, ekki síst á Indlandi þar sem hópnauðganir eru síður en svo óalgengar. Fjölmiðlar og löggæsla hafa verið vakin til vitundar um þau viðhorf sem ríkja gagnvart konum í landinu og sjónum hefur verið beint að þjóðfélagsgerðinni, þar sem mismunum á grundvelli kynferðis viðgengst víða og gjarnan er litið á konur sem annars flokks þegna.

Mótmælt hefur verið víða um heim vegna hópnauðgunarinnar í Nýju-Delí …
Mótmælt hefur verið víða um heim vegna hópnauðgunarinnar í Nýju-Delí á Indlandi. AFP
Háskólanemar á Indlandi mótmæla kynferðislegu ofbeldi.
Háskólanemar á Indlandi mótmæla kynferðislegu ofbeldi. AFP
mbl.is