Reyndu að keyra yfir konuna

Nauðgunarmálið hefur valdið mótmælum í Indlandi.
Nauðgunarmálið hefur valdið mótmælum í Indlandi. RAVEENDRAN

Mennirnir sem nauðguðu 23 ára konu í Nýju-Delhi í desember reyndu að aka yfir hana eftir að hafa hent henni út úr strætisvagni. Unnusti stúlkunnar náði að draga hana í skjól. Þetta er fullyrt í fjölmiðlum á Indlandi.

Konan lést af áverkum sínu 13 dögum eftir árásina. Sex menn eru í haldi grunaðir um að hafa nauðgað konunni nokkrum sinnum. Mennirnir gengu einnig í skokk á unnusta konunnar, en hann reyndi að verja hana. Lögregla á Indlandi segir að föt konunnar og unnusta hennar hafi verið rifin utan af þeim áður en þeim var hent út úr strætisvagninum.

Lögregla mun í dag leggja fram gögn fyrir héraðsdómi, upp á um þúsund blaðsíður, um nauðgarmálið.

Konan var læknanemi. Hún var leið heim með unnusta sínum þegar sex menn réðust á hana í strætisvagni. Fjölmiðlar í Indlandi segja að konan hafi gert allt sem hún gat til að verjast árásarmönnunum. Hún hafi t.d. bitið þrjá þeirra. Sár sem eru á mönnunum og sýni úr blóði, sæði og hári eru meðal sönnunargagna sem lögreglan telur sanna hverjir voru að verki.

Mennirnir sem sitja í haldi verða ákærðir fyrir nauðgun og morð. Einn mannanna segist vera 17 ára gamall, en lögregla hefur ákveðið að gerð verði rannsókn til að staðfesta aldur hans.

Einn þeirra sem er í haldi er ökumaður strætisvagnsins. Hann er grunaður um að hafa fengið nokkra vini sína til að koma með sér í vagninn, beinlínis í þeim tilgangi að nauðga farþega. Hann er einnig grunaður um að hafa fargað sönnunargögnum, en hann þvoði bílinn að innan og brenndi föt stúlkunnar og kærasta hennar.

Stjórnvöld í Indlandi hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa gert lítið til að verja konur fyrir nauðgurum. Lögreglan hefur einnig verið gagnrýnd fyrir slæleg vinnubrögð við rannsókn nauðgunarmála. Stjórnvöld hafa ákveðið að skipa 13 manna nefnd sem á að gera tillögur um hvernig er hægt að bæta öryggi kvenna og gera tillögur um endurskoðun á skipulagi og vinnubrögðum lögreglu.

mbl.is