Landspítalinn innan ramma fjárlaga

„Það bendir allt til þess að við munum verða innan heimilda fjárlaga þannig að spítalinn verði örfáar milljónir í plús. Þetta er þriðja árið í röð sem spítalinn nær þessum ótrúlega árangri á niðurskurðartímum eins og hafa verið síðustu ár,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, í pistli á heimasíðu spítalans í dag.

„Við höfum oft rætt það, og ég hef bent ykkur á það áður, að niðurskurðurinn eftir að kreppan byrjaði er orðinn rúmlega 20%. Þrátt fyrir það höfum við nú, á mjög erfiðum árum, náð að halda spítalanum innan fjárheimilda eins og lög gera ráð fyrir. Það er ekkert minna en frábært,“ segir hann ennfremur.

Björn segir að öllum hafi verið ljóst að það þyrfti mikið átak árin 2010 og 2011 til þess að halda rekstri spítalans innan marka fjárlaga en síðasta ár hafi hins vegar verið sýnu erfiðara. Þetta hafi tekist þrátt fyrir að starfsemin hafi aukist og komur til dæmis á bráðamóttöku hafi verið 2.520 fleiri en árið áður og legudagar 4.700 fleiri.

„Þessi árangur starfsfólks spítalans er afrek og eftirtektarverður því það er ekki sjálfgefið að halda háskólaspítala með vaxandi starfsemi innan fjárlaga í eðlilegu árferði, hvað þá á niðurskurðartímum sem eru í raun og veru fordæmislausir, að minnsta kosti hvað spítalann varðar og prósentulegan niðurskurð,“ segir hann.

Nú sé hins vegar nóg komið og tími til þess að spyrna við fótum og hefja uppbyggingu á ný en árið 2013 sé fyrsta árið síðastliðin fimm ár sem Landspítalanum sé ekki gert að skera neitt niður. Þá hafi fengist viðbótarfjárveiting upp á 600 milljónir króna til tækjakaupa.

„Ýmis vá er þó framundan, bæði rekstrarleg og í mönnun spítalans, en við verðum að vona að við náum að leysa úr þeim erfiðleikum með hagsmuni og öryggi sjúklinga að leiðarljósi,“ segir hann að lokum.

Pistill Björns Zoëga

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is