„Hvað get ég sagt? Sú grimmd, sem ég sá, ætti ekki að koma fyrir augu nokkurs manns. Ég reyndi að berjast gegn mönnunum, en síðan bað ég þá aftur og aftur um að sleppa henni,“ segir unnusti ungrar konu sem lést eftir hópnauðgun í strætisvagni í borginni Nýju-Delí á Indlandi.
Parið hafði verið í kvikmyndahúsi að kvöldi 16. desember. Þau tóku strætisvagn heim, þar sem sem sex karlmenn réðust á þau og nauðguðu konunni ítrekað. Að auki misþyrmdu þeir henni með járnstöng, við það hlaut hún innvortis áverka sem drógu hana til dauða.
Maðurinn sagði fjölmiðlum sögu sína í dag.
„Mér leist ekki vel á að fara inn í þennan vagn, en unnusta mín var sein fyrir, svo við létum slag standa. Þetta eru stærstu mistök sem ég hef gert,“ sagði hann.
Hann sagði að ökumaðurinn hefði byrjað að koma með ósæmilegar athugasemdir við parið og félagar hans hefðu tekið undir þær. Hann hefði þá beðið ökumanninn að stöðva vagninn, en þá hefðu félagar hans læst dyrunum. „Þeir börðu mig með priki, drógu unnustu mína í annað sæti og síðan nauðguðu ökumaðurinn og hinir mennirnir henni og börðu hana á viðkvæma staði. Ég get ekki sagt ykkur hvernig mér líður þegar ég hugsa um þetta. Ég skelf af kvölum.“
Hann fótbrotnaði og hlaut ýmis meiðsli í árásinni og dvelur nú á heimili foreldra sinna, en hann starfar hjá tölvufyrirtæki í Nýju-Delí.
Maðurinn sagði að þeir vegfarendur, sem þau mættu eftir að þeim hafði verið hent klæðlitlum út úr strætisvagninum, hefðu ekki viljað koma þeim til aðstoðar. Hann gagnrýnir lögreglu fyrir að hafa lítið skeytt um það áfall sem hann og unnusta hans höfðu orðið fyrir og segir þá læknishjálp, sem konan fékk á slysadeildinni þar sem hún lagðist inn, ekki hafa verið viðunandi.