DNA fannst í fötum mannanna

Mótmælagöngur vegna atburðanna í Nýju-Delí hafa verið víða á Indlandi …
Mótmælagöngur vegna atburðanna í Nýju-Delí hafa verið víða á Indlandi undanfarna daga. Fólkið krefst breyttra vinnubragða lögreglu í nauðgunarmálum. AFP

Blóð úr fórnarlambi hrottalegrar hópnauðgunar í strætisvagni í borginni Nýju-Delí á Indlandi fannst í fötum þeirra sex karlmanna sem ákærðir hafa verið fyrir verknaðinn. DNA-rannsókn hefur staðfest þetta. Mennirnir munu koma fyrir rétt á morgun.

Konan, sem var nauðgað, lést af áverkum sem hún hlaut við árásina.

Saksóknari í málinu telur sig hafa haldbær sönnunargögn í málinu, en að auki hefur unnusti konunnar, sem var með henni í för og varð einnig fyrir misþyrmingum, borið kennsl á mennina.

Einnig fundust munir úr eigu parsins í fórum mannanna.

Mennirnir eru á aldrinum 19-35 ára, en óvíst er um aldur eins þeirra sem talinn er vera undir sakhæfisaldri og er niðurstaðna aldursgreiningar nú beðið. Hávær krafa hefur verið á Indlandi um að mennirnir hljóti líflátsdóm, verði þeir fundnir sekir um glæpinn. 

Dauðarefsingar eru í gildi á Indlandi en þeim er sjaldan beitt, nema um sérlega alvarlega glæpi sé að ræða.

Margir hafa krafist þess að mennirnir verði teknir af lífi, …
Margir hafa krafist þess að mennirnir verði teknir af lífi, verði þeir fundnir sekir um glæpinn. AFP
mbl.is