„Viljum að heimurinn viti nafn hennar“

Frá mótmælum í dag í Nýju Delí á Indlandi vegna …
Frá mótmælum í dag í Nýju Delí á Indlandi vegna nauðgunarinnar. AFP

„Dóttir mín gerði ekkert rangt, hún lét lífið við að reyna að verja sig,“ segir faðir indversku konunnar sem ráðist var á af hópi karlmanna um miðjan desember og henni nauðgað með þeim afleiðingum að hún lést í kjölfarið um síðustu helgi. Fram kemur í frétt AFP að faðirinn hafi hvatt til þess í viðtali við breska götublaðið Sunday People sem birtist í dag að nafn dóttur sinnar yrði gert opinbert til þess að veita öðrum konum hugrekki sem lifað hafi af slíkar árásir.

„Við viljum að heimurinn viti hennar rétta nafn. Ég er stoltur af henni. Með því að opinbera nafn hennar verður öðrum konum sem lifað hafa af slíkar árásir veitt hugrekki. Þær munu finna fyrir styrk frá dóttur minni,“ segir faðirinn en indversk lög banna að nöfn þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisárásum séu gerð opinver til þess að vernda þau frá því að verða fyrir smán í augum samfélagsins. Nafn konunnar og föður hennar hafi hins vegar verið birt í breska blaðinu.

Sunday People birti einnig mynd af föðurnum en hann vildi hins vegar ekki að birt yrði mynd af dóttur sinni. Faðir konunnar notaði einnig tækifærið sem viðtalið veitti til þess að kalla aftur eftir því að þeir sem réðust á dóttur hans yrðu hengdir. Þá sagði hann að sá stuðningur sem fjölskyldan hefði fundið fyrir frá indversku þjóðinni hefði veitt henni styrk til þess að takast á við missi sinn en mikil mótmæli hafa farið fram á Indlandi vegna málsins. „Mér finnst eins og hún sé ekki bara dóttir mín heldur líka dóttir Indlands.“

mbl.is