Árásarmennirnir formlega ákærðir

Búið er að gefa út formlega ákæru á hendur fimm karlmönnum í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, fyrir mannrán, hópnauðgun og morð. Mönnunum er gefið að sök að hafa ráðist á 23 ára gamla konu í strætisvagni og nauðgað henni með þeim afleiðingum að hún lést af sárum sínum.

Dómari í borginni hefur fyrirskipað að vitnaleiðslur verði haldnar fyrir luktum dyrum eftir að mikil ringulreið og öngþveiti skapaðist þegar lögmenn fordæmdu einn starfsbróður sinn sem hafði boðist til að verja sakborningana.

Vitnaleiðslur fara næst fram 10. janúar. Búist er við að réttarhaldinu verði vísað til nýs dómstóls þar sem mál fá flýtimeðferð.

Mennirnir mættu fyrir dómara í Saket-hverfi í Nýju-Delí, en þar voru ákærurnar lesnar upp með formlegum hætti.

Málið hefur vakið mikinn óhug á Indlandi og umræður um hvernig komið sé fram við konur þar í landi, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Um helgina var fjórum lögreglumönnum vikið tímabundið úr starfi vegna þess hvernig þeir brugðust við öðru nauðgunar- og morðmáli skammt frá Nýju-Delí. Faðir 21 árs gamallar stúlku heldur því fram að dóttur sinni hafi verið nauðgað af hópi manna. Lík hennar fannst svo á laugardaginn. Faðirinn segir ennfremur að lögreglan hafi í fyrstu ekki aðhafst neitt þegar hann tilkynnti hvarf dótturinnar, en lögreglumennirnir héldu því fram að hún hefði stungið af með einhverjum öðrum.

Mótmæli brutust út vegna málsins í Noida, sem er úthverfi Nýju-Delí, en þar starfaði konan í verksmiðju. Tveir menn hafa nú verið handteknir í tengslum við málið en sá þriðji er sagður hafa flúið.

Fimmmenningarnir voru fluttir í brynvörðum lögreglubíl í dómshúsið.
Fimmmenningarnir voru fluttir í brynvörðum lögreglubíl í dómshúsið. AFP
mbl.is