Nýtt morð- og nauðgunarmál á Indlandi

Hrottaleg nauðgunarmál hafa vakið mikla reiði meðal almennings í Indlandi …
Hrottaleg nauðgunarmál hafa vakið mikla reiði meðal almennings í Indlandi að undanförnu AFP

Fjórir lögreglumenn hafa verið reknir úr starfi og sá fimmti fluttur til vegna þess hvernig þeir tóku á nýju nauðgunar- og morðmáli á Indlandi. Ódæðið var framið skammt frá höfuðborginni, Nýju-Delí.

Í frétt á vef BBC kemur fram að faðir fórnarlambsins segir að dóttur sinni, 21 árs, hafi verið nauðgað af hópi karlmanna. Lík stúlkunnar fannst á laugardag. Tveir menn hafa verið handteknir og fréttir hafa borist af flótta þess þriðja.

Stúlkan starfaði í verksmiðju í Noida, úthverfi höfuðborgarinnar. Hún hvarf á leið heim frá vinnu á föstudagskvöldið, hefur BBC eftir fréttum indverskra fjölmiðla.

Faðir hennar segir að lögregla hafi ekki brugðist strax við er hann tilkynnti hvarf hennar heldur hafi haldið því fram við hann að hún hafi stungið af með einhverjum. 

mbl.is