Algjört öngþveiti braust út þegar karlmennirnir fimm, sem sakaðir eru um að hafa hópnauðgað og myrt 23 ára gamla konu á Indlandi í desember, komu fyrir réttinn í morgun. Dómari fyrirskipaði að réttarhöldin skyldu fara fram fyrir luktum dyrum og var þeim frestað tímabundið vegna ástandsins.
Mennirnir hefðu komið í fyrsta sinn fyrir augu almennings í réttarhöldunum í morgun, en ekki varð af því. Fréttaritari BBC í Delhi segir að rifrildi hafi brotist út meðal lögfræðinga, eftir að nokkrir úr þeirra buðu sig fram sem verjendur og uppskáru hörð viðbrögð kollega sinna sem sögðu sakborningana ekki eiga sér neina málsvörn. Þá var dómshúsið undirlagt af bæði lögreglumönnum og innlendum og erlendum blaðamönnum.
Ekkert sást til hinna fimm ákærðu, þótt þeir hafi verið í dómshúsinu, en þeir voru fluttir þangað í lögreglubíl með skyggðum rúðum svo engar myndir náðust af þeim. Sá sjötti sem er grunaður er talinn vera 17 ára gamall og verður réttað yfir honum í sérstökum unglingadómstól. Verði þeir sakfelldir gæti sexmenninganna beðið dauðadómur. Saksóknarar segja skýr sönnunargögn liggja fyrir.
Neita að taka málið að sér
Nafn ungu konunnar sem var nauðgað og myrt hefur ekki verið gefið upp á Indlandi en hinir grunuðu hafa hins vegar verið nafngreindir sem Ram Singh, bróðir hans Mukesh, Pawan Gupta, Vinay Sharma og Akshay Thakur.
Félag lögfræðinga við héraðsdómstólinn í Saket í Delhi hafa hafnað því að verja mennina fimm vegna hinnar hörðu fordæmingar sem nauðgunarmálið hefur fengið í landinu og um allan heim. Dómarinn, Narnrita Aggarwal, fyrirskipaði að réttarhöldin yrðu lokuð og fá blaðamenn ekki að sitja í salnum. „Það er ómögulegt fyrir dóminn að framfylgja málinu við þessar aðstæður,“ hefur AFP eftir Aggarwal.
Málið hefur orðið til þess að kallað er eftir harðari löggjöf gegn nauðgunum og endurbótum hjá lögreglu sem sagt er að neiti oft að skrá nauðgunarkærur. Að auki hefur málið orðið til þess að vekja miklar umræður um ofbeldi gegn konum á Indlandi og víðar.