Karl Vignir verður yfirheyrður í dag

Vistheimilið Kumbaravogur.
Vistheimilið Kumbaravogur. mbl.is

Karl Vignir Þorsteinsson hefur verið boðaður til yfirheyrslu hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Á upptökum sem sýndar voru í Kastljósi í gærkvöld játaði Karl Vignir á sig tug kynferðisbrota gegn börnum en stór hluti brotanna mun vera fyrndur að lögum.

Reynt að fá botn í málið

„Það verður farið yfir þetta frá upphafi til enda. Við reynum að fá einhvern botn í þetta,“ segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, sem boðaði Karl Vigni í yfirheyrslu vegna umfjöllunar Kastljóss þar sem fram kom að hann hafi beitt fjölda barna kynferðisofbeldi, m.a. í gegnum störf sín fyrir aðventistasöfnuðinn í Vestmannaeyjum, á Hótel Sögu og sem tíður gestur á barnaheimilinu Kumbaravogi.

Aðspurður segir Björgvin að kærur hafi ekki verið lagðar fram gegn Karli Vigni síðan árið 2007. Hann játaði sök en brotin sem hann var þá kærður fyrir voru fyrnd samkvæmt lögum. Eftir lagabreytingu sem tók gildi í apríl 2007 byrja kynferðisbrot gegn börnum að fyrnast þegar brotaþoli nær 18 ára aldri, þegar engin sérstök tengsl eru milli brotaþola og geranda, líkt og í málum Karls Vignis og barnanna á Kumbaravogi.

Ef hins vegar sérstök trúnaðartengsl eða vensl eru milli geranda og þolanda, t.d. ef barnið er kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn eða sambúðarbarn geranda eða þá ef honum hefur verið trúað fyrir barninu til kennslu eða uppeldis, þá fyrnast brotin ekki. Nauðgun eins og hún er skilgreind skv. 194 gr. almennra hegningarlaga fyrnist heldur ekki, en samkvæmt heimildum mbl.is ríkir um það nokkur óvissa hvort heimfæra megi alvarlegt kynferðisbrot gegn barni undir nauðgunarákvæðið og liggur ekki fyrir afgerandi dómafordæmi um slíka heimfærslu.

Aðgengi að börnum þrátt fyrir „ónáttúruna“

Í desember 2007 birtist í Morgunblaðinu frásögn Guðrúnar Sverrisdóttur hjúkrunarfræðings um börnin á Kumbaravogi, sem hún skrifaði í minningu frænda síns, Einars Þórs Agnarssonar - og allra hinna. Einar Þór var eitt fórnarlamba Karls Vignis og beittur kynferðisofbeldi frá unga aldri á Kumbaravogi. Herbergisfélagi hans, Elvar Jakobsson, var einn viðmælenda í Kastljósi í gær.

„Þagnarmúrinn var ekki rofinn fyrr en nýverið. Enginn vissi neitt fyrr en nú 40 árum síðar - eða hvað?“ segir í grein Guðrúnar frá 2007. „Að sögn Kristjáns á Kumbaravogi „sendi“ hann Karl Vigni á einhverjum tímapunkti, af því að hann hafði einhverja „ónáttúru“, til Þórðar Möller geðlæknis. Fáfræðin á fósturheimilinu virðist allsráðandi og blinda auganu snúið að börnunum. Barnaníðingurinn var sendur til geðlæknis en ekki börnin. Karl Vignir var „heimilisvinur“ og þrátt fyrir „ónáttúruna“ leyfðist honum áframhaldandi aðgangur að Kumbaravogi og börnunum.“

Aldrei stoppaður af

Guðrún spurði í grein sinni hversu mörg börn Karl Vignir hafi misnotað, hve margar barnssálir hann hafi skaddað og hve mörg líf hann hafi lagt í rúst undanfarin 40-50 ár. „Karl Vignir var aldrei stoppaður af! Hvert sem hann fór skildi hann eftir sig sviðna jörð. Óþokkaverkin voru hvorki kærð né barnaníðingnum fylgt eftir. Einfaldlega var honum sagt upp störfum vegna „ónáttúru“ en þá skipti hann bara um vinnustað! Karl Vignir vissi sem var „að þeir fiska sem róa“,“ sagði í grein Guðrúnar.

„Hvar voru bestu miðin? Hvar var helst lítilmagnann að finna? Hvar er óskastaður barnaníðings? Starfa við eftirlit og umönnun á Sólheimum í Grímsnesi? Vinna við umsjón í kirkju sem fjöldi barna sækir? Vaða um óáreittur á barnaheimilinu Kumbaravogi? Vera yfirmaður unglingsdrengja, töskubera, á hóteli hér í bæ? Hvað skyldi barnaníðingurinn aðhafast í dag?

„Karl Vignir getur lagst á bæn og þakkað fyrir það að búa í vernduðu umhverfi íslenskra laga. Hvað skyldi hafa verið gert við mann eins og hann t.d. í Texas? Samkvæmt máttvana lagabókstaf íslenskum er Karl Vignir laus allra mála. Málin fyrnd! Í skjóli laganna getur trúrækni barnaníðingurinn Karl Vignir raulað fyrir munni sér: „Ó, Jesús kastar öllum mínum syndum á bakvið sig/og ég sé þær aldrei meir.““

Grein Guðrúnar Sverrisdóttur frá árinu 2007 má lesa hér

Umfjöllun Kastljóss síðan í gær má nálgast hér

Karl Vignir Þorsteinsson
Karl Vignir Þorsteinsson
Einar Þór Agnarsson var beittur kynferðisofbeldi á Kumbaravogi frá 8 …
Einar Þór Agnarsson var beittur kynferðisofbeldi á Kumbaravogi frá 8 ára aldri og lést 24 ára gamall.
mbl.is